Körfubolti

26. maí 1998 var mikilvægur dagur fyrir framtíð íslenska körfuboltans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson og Emelía Ósk Gunnarsdóttir.
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson og Emelía Ósk Gunnarsdóttir. Vísir/Samsett
Ritstjórn karfan.is vekur í dag athygli á skemmtilegri staðreynd en svo vill til að bestu ungu leikmenn fyrri hluta Domino´s deildanna í körfubolta eru fædd sama dag og á sama ári.

Emelía Ósk Gunnarsdóttir, leikmaður kvennaliðs Keflavíkur og Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, leikmaður karlaliðs KR, eru bæði fædd þann 26. maí 1998.

Bæði eru þau í stórum hlutverkum í sínum meistaraflokkum þrátt fyrir ungan aldur og hafa jafnframt verið í meistaraflokksliðinu í nokkur ár. Bæði urðu þau einnig bikarmeistarar með liðum sínum á dögunum.

Emelía Ósk Gunnarsdóttir er með 12,4 stig, 5,2 fráköst og 2,1 stolinn bolta að meðaltali í Domino´s deildinni í vetur en hún spilaði sína fyrstu A-landsleiki í vetur.

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson náði að vinna tvo Íslandsmeistaratitla með KR fyrir átján ára afmælið en hann er með 11,8 stig, 3,4 fráköst og 2,3 stoðsendingar að meðaltali í Domino´s deildinni í vetur

Emelía og Þórir eru 18 ára, 9 mánaða og 23 daga gömul í dag og verða bæði verða í eldlínunni með sínum liðum í kvöld.

KR-liðið getur sent lið Þór Akureyrar í sumarfrí og tryggt sér sæti í undanúrslitum Domino´s deildar karla en Emelía Ósk og félagar hennar í Keflavík mæta Snæfell í Stykkishólmi í uppgjöri tveggja efstu liða deildarinnar í lokaumferð deildarkeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×