Körfubolti

Pavel og Tryggvi skiluðu hæsta framlaginu í einvígi KR og Þórs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pavel Ermolinskij og Tryggvi Snær Hlinason.
Pavel Ermolinskij og Tryggvi Snær Hlinason. Vísir/Eyþór
Þórsarar eru úr leik í úrslitakeppni Domino´s deildar karla í körfubolta eftir 3-0 tap á móti Íslandsmeisturum KR í átta liða úrslitunum. Það er fróðlegt að sjá hverjir stóðu sig best í einvíginu. 

KR-liðið vann alla leikina nokkuð örugglega en fengu þó mestu mótspyrnuna í lokaleiknum. KR-ingar kláruðu leikinn í lokin og tryggðu sér undanúrslitasætið.

Ljósið í einvíginu fyrir Akureyringa var frammistaða miðherjans unga, Tryggva Snæs Hlinasonar, en hann var með hæsta framlagið í Þórsliðinu og það næsthæsta í einvíginu.

KR-ingurinn Pavel Ermolinskij var með þrennu í síðasta leiknum (10 stig, 16 fráköst, 10 stoðsendingar) og endaði með hæsta framlagið eða 22,3 að meðaltali í leik. Meðaltöl Pavels í einvíginu voru 8,7 stig, 14,3 fráköst og 8,0 stoðsendingar.  Pavel var með flest fráköst, flestar stoðsendingar og flesta stolna bolta í einvíginu.

Tryggvi Snær Hlinason var með 19,3 framlagsstig að meðaltali í leik en í leikjunum þremur var hann með 16,0 stig, 10,0 fráköst og 2,3 varin skot að meðaltali í leik. Tryggvi hitti úir 58 prósent skota sinna utan af velli í einvíginu.

Jón Arnór Stefánsson, hjá KR, er síðan í þriðja sætinu með 18,3 framlagsstig í leik en Jón var með 17,7 stig, 4,7 fráköst og 4,3 stoðsendingar að meðaltali í leikjunum þremur.

Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR, og George Beamon, bandaríski leikmaður Þórsliðsins, voru síðan jafnir í fjórða sætinu. Brynjar Þór skoraði flest stig allra í einvíginu eða 18,3 að meðaltali í leik en hann hitti úr 53 prósent þriggja stiga skota sinna í einvíginu (16 af 30).

Philip Alawoya, bandaríski leikmaður KR-liðsins, var aðeins með sjöunda hæsta framlagið í einvíginu rétt á undan liðsfélögum sínum Darra Hilmarssyni og  Þóri Þorbjarnarsyni.



Hæsta framlagið í einvígi KR og Þórs Ak.:

1. Pavel Ermolinskij, KR 22,3

2. Tryggvi Snær Hlinason, Þór Ak. 19,3

3. Jón Arnór Stefánsson, KR 18,3

4. Brynjar Þór Björnsson, KR 17,0

4. George Beamon, Þór Ak. 17,0

6. Darrel Keith Lewis, Þór Ak. 14,3

7. Philip Alawoya, KR 13,7

8. Darri Hilmarsson, KR 11,7

9. Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, KR    11,3

10. Ingvi Rafn Ingvarsson, Þór Ak.    8,7




Fleiri fréttir

Sjá meira


×