Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Tindastóll - Keflavík 107-80 | Stólarnir í stuði

Telma Ösp Einarsdóttir í Síkinu á Sauðárkróki skrifar
Keflvíkingar fengu á baukinn.
Keflvíkingar fengu á baukinn. vísir/ernir
Með bakið upp við vegginn og tímabilið undir spörkuðu Stólarnir heldur betur frá sér og pökkuðu Keflvíkingum saman í Síkinu.

Stólarnir byrjuðu frábærlega og voru afar grimmir frá upphafi. Spilaður var mjög hraður bolti og keyrðu vel á Keflvíkinga alveg frá upphafi.

Það virtist hins vegar eitthvað vanta hjá Keflavík í kvöld því Stólarnir voru fljótir að vaða yfir þá. Í hálfleik leiddi Tindastóll leikinn með 25 stigum. Keflvíkingar voru því í eltingaleik allan leikinn.

Í seinni hálfleik hélt baráttan svo áfram. Stólarnir gáfu ekkert eftir og Keflvíkingar náðu aldrei að komast almennilega í leikinn.

Lokatölur urðu 107 – 80 Tindastól í vil, en ef þeir hefðu ekki unnið þennan leik væri þeir á leiðinni í sumarfrí.

Af hverju vann Tindastóll?

Stólarnir sýndu mikinn vilja í kvöld og það sást langar leiðir að þeir ætluðu ekki í sumarfrí í kvöld. Þeir mættu til leiks af miklum vilja og voru afar grimmir frá upphafi.

Varnarleikur þeirra var frábær og orsakaði 10 tapaða bolta hjá Keflvíkingum. Stólarnir voru að setja þriggja stiga skotin niður í kvöld, en það duttu 16 þristar í leiknum hjá Tindastól.

Bestu menn vallarins:

Björgvin var frábær hjá Tindastól í kvöld. Hann keyrði mikið á körfuna og náði góðu jafnvægi í sóknarleik Stólanna. Chris var líka frábær í kvöld. Hann er að ná sér upp eftir aðgerð á hnéi og skilaði inn 19 stigum á tæpum 20 mínútum.

Áhugaverð tölfræði:

Tindastóll setti niður 16 þrista sem skipti gríðarlegu miklu máli fyrir sigurinn. Stólarnir voru með 22 stoðsendingar á meðan keflvíkingar voru með 8.

Amin Stevens var ekki alveg að finna sig í kvöld en hann var bara með 6 stig. Hann hefur annars verið með 29,54 stig að meðaltali í leik á tímabilinu.

Hvað gekk illa?

Keflvíkingum gekk illa að ráða við vörnina hjá Stólunum og voru ekki líkir sjálfum sér. Tindastóll náði að loka nánast alveg á Amin Stevens sem er stór hluti Keflavíkurliðsins.  

Þó svo að Keflvíkingar lokuðu teignum settu Stólarnir skotin fyrir utan þriggastiga línuna niður. Það vaf því erfitt fyrir Keflavík að stoppa Stólana í kvöld.

Friðrik: Tindastóll átti skilið að vinna

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur, var afar ósáttur með sína menn eftir tapið gegn Tindastól í þriðju viðureign 8-liða úrslita Domino‘s deildar karla í körfuknattleik í kvöld.

„Tindastóll var einfaldlega miklu betra lið í  dag og átti skilið að vinna, engin spurning. Þeir voru grimmari frá fyrstu mínútu og við vorum í eltingaleik því miður. Við náðum einhvern veginn aldrei takti. Það vantaði ákveðinn neista í okkur í dag,“ sagði Friðrik í samtali við Vísi.

Hann segir að það hafi verið stór munur á frammistöðu liðsins í kvöld. Þeir hafi einfaldlega verið linir og á köflum hafi honum fundist þeir vera kærulausir og á hálfum hraða.

„Þeir nýttu sér það og voru fljótir að grípa gæsina. Hittu vel, fengu sjálfstraust og voru alltaf á undan.“

Daði Lár Jónsson, leikmaður Keflavíkur meiddist fyrr í leiknum og var sóttur með sjúkrabíl. Aðspurður um stöðuna á honum segist hann hafa heyrt að, um einhverja tognun sé að ræða og  að hann eigi eftir að heyra betur frá því.

Martin: Mér er svakalega létt

Israel Martin, þjálfari Tindastóls, var mjög ánægður með sigur hans manna gegn Keflavík í kvöld.

„Mér er svakalega létt. Það er eins og ég hafi misst 10 eða 20 kg á þessari stundu. Ég held að öllum líði svona. Eftir fyrsta leikinn í Síkinu þegar við töpuðum í framlengingunni, settum við smá pressu á okkur og við vorum ekki að smella svona. Í kvöld sáum við á hvaða stigi við getum spilað og við unnum í kvöld. Ég er mjög ánægður,“ sagði Martin að leik loknum.

Hann segir að fyrir alla leiki séu þeir með leikskipulag. Um leið og úrslitakeppnin byrjar, skipulögðu þeir sum smáatriðin öðruvísi og í dag hafi það virkað betur en í hinum leikjunum.

„Núna snýst þetta um vörnina, orku, baráttu og að trúa á leikinn okkar. Núna erum við t.d. með 10 stolna bolta og 22 stoðsendingar. Þetta er frábært fyrir leikinn okkar.“

 

Hann segir að nú sé það bara að njóta sigursins og í fyrramálið muni hann hugsa um næsta leik. Hann bætir við að þeir verði að spila með karakter eins og þeir gerðu í dag.

„Mér líður í dag eins og við höfum ráðið tempóinu betur en í fyrstu 2 leikjunum. Við verðum að halda áfram að deila og hreyfa boltann og spila eins og lið.“  

Magnús: Klikkaði allt hjá okkur

Magnús Már Traustason, leikmaður Keflavík var afar svekktur eftir tap kvöldsins. Hann segir að það hafi allt klikkað hjá þeim og þeir hafi skorað endalaust af þriggjastiga körfum.

„Þeir settu 60 stig á okkur í fyrri hálfleik  og það er erfitt að koma til baka út frá því,“ sagði Magnús að leik loknum.

Hann segir þá hafa komið flatir inn í leikinn og ekki spilað sinn leik. Stólarnir hafi tekið fast á þeim og hafi verið mjög flottir í kvöld.

„Við ætlum auðvitað að fara í næsta leik og vinna hann. Það verður gaman að klára þetta heima ef það tekst.“

Björgvin: Þegar vörnin er að smella erum við drullugóðir

Björgvin Hafþór Ríkharðsson, leikmaður Tindastóls var alsæll með sigur kvöldsins.

 

„Við vorum með bakið upp við vegg fyrir þennan leik. Við þurftum að vinna og gerðum það. Það sem skók sigurinn í dag var vörnin númmer eitt, tvö og þrjú. Svo vorum við að hitta þessum þristum sem við vorum að fá opna,“ sagði Björgvin léttur.

Hann segir reyndar við að þeir hafi verið að fá þá opna í síðustu tvem leikjum en þeir hafi ekki verið að dett hjá þeim þá.

„En þeir duttu í dag og vörnin var að smella. Það er það sem skók sigurinn.

„Við höldum þeim í 80 stigum í dag. Við vorum að ná að stoppa Amin Stevens og hann skoraði bara 6 stig. Ég veit ekkert hvort eitthvað annað lið hafi náð að halda honum undir 10 stigum í vetur. Núna þurfum við allavega að vera klárir í næsta leik og það er bara úrslitaleikur eins og þessi var í dag,“ segir Björgvin hafa verið aðalmunurinn á þessum leik og hinum tvem í úrslitakeppninni.

Hann segir að nú muni þeir setjast niður og slaka á því þeir mega ekki vera allt of mikið uppi. Á morgun muni þeir svo hittast, tala um framhaldið og hvernig þeir ætla að spila úr því. Hann er ekki alveg viss hvernið þeir fara að því en Martin ráði því auðvitað.

„Það verður örugglega eitthvað svipað upp á teningnum. Brjáluð vörn og þegar vörnin er að smella erum við drullu góðir.“



Tindastóll-Keflavík 107-80 (27-19, 32-15, 28-24, 20-22)

Tindastóll: Björgvin Hafþór Ríkharðsson 22/5 stolnir, Christopher Caird 19, Pétur Rúnar Birgisson 14/5 stoðsendingar, Antonio Hester 13/9 fráköst, Helgi Freyr Margeirsson 12, Friðrik Þór Stefánsson 9, Hannes Ingi Másson 7, Svavar Atli Birgisson 6, Helgi Rafn Viggósson 3, Pálmi Geir Jónsson 2, Viðar Ágústsson 0, Finnbogi Bjarnason 0.

Keflavík: Magnús Már Traustason 18, Reggie Dupree 14/4 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 10, Ágúst Orrason 9/5 fráköst, Guðmundur Jónsson 9, Amin Khalil Stevens 6/11 fráköst, Davíð Páll Hermannsson 5, Kristján Örn Rúnarsson 4, Arnór Ingi Ingvason 3, Arnór Sveinsson 2, Daði Lár Jónsson 0, Elvar Snær Guðjónsson 0.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×