Erlent

Faðir Lubitz vill nýja rannsókn

Samúel Karl Ólason skrifar
Günter Lubitz á blaðamannafundinum í dag.
Günter Lubitz á blaðamannafundinum í dag. Vísir/AFP
Günter Lubitz er fullur efasemda um að sonur sinn Andreas Lupitz hafi flogið vísvitandi á fjall í frönsku ölupunum fyrir tveimur árum. 150 manns voru um borð og allir létu lífið. Hann segir son sinn ekki hafa verið í sjálfsmorðshugleiðingum og kallar eftir nýrri rannsókn.

Þetta kom fram á blaðamannafundi Günter Lubitz og blaðamanns í dag.

Blaðamaðurinn Tim van Beveren, sem Lubitz réð til að fara yfir gögn málsins með sér, segir ekkert hafa verið sannað varðandi það af hverju flugstjóri Germanwings A320 flugsins frá Barcelona til Duesseldorf hafi ekki komist aftur inn í flugstjórnarklefann eftir að hann fór á klósettið.

Hann sagði einnig að ókyrrð hafi mögulega neytt Lubitz til að lækka flugið og að ekki hafi verið sannað að Lubitz hafi verið með meðvitund þegar flugvélin lækkaði flugið.

Þetta var í fyrsta sinn sem Günter Lubitz ræddi við fjölmiðla í þessi tvö ár. Hann lýsti því yfir að það hefði slegið fjölskyldu hans verulega að rannsakendur hefðu lýst því yfir, einungis nokkrum dögum eftir brotlendinguna, að sonur hans hefði flogið viljandi á fjallið.

„Við höfum þurft að lifa með því að honum hefur verið stillt upp sem fjöldamorðingja í fjölmiðllum,“ sagði hann samkvæmt Reuters. Þegar hann var spurður hvort hann trúði því að sonur sinn væri saklaus, svaraði Günter á þá leið að hann væri „að leita sannleikans“.

Lufthansa, móðurfélag Germanwings, segir enga ástæðu til að trúa ekki niðurstöðum rannsakenda. Saksóknarinn Christoph Kumpa slær á svipaða strengi og segir að ekki eigi að opna rannsóknina að nýju. Ekkert tilefni sé til þess.

Hljóðupptökur úr flugstjórnarklefanum sýna fram á að flugstjórinn reyndi að brjóta hurðina niður með öxi áður en flugvélin lenti á fjallinu. Lubitz er sagður hafa hægt á vélinni og byrjað að lækka flugið eftir að flugstjórinn fór á klósettið, skömmu eftir flugtak.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×