Íslenski boltinn

Sex mörk og tvö rauð í sigri Valsmanna

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Sigurður Egill í bikarúrslitaleiknum síðasta sumar.
Sigurður Egill í bikarúrslitaleiknum síðasta sumar. mynd/hafliði breiðfjörð
Valsmenn komust í átta liða úrslit Lengjubikarsins með 4-2 sigri á Þórsurum frá Akureyri í Boganum en Valsmenn hafa því unnið alla fjóra leiki liðsins í Lengjubikarnum.

Sigurður Egill Lárusson kom Valsmönnum yfir en í upphafi seinni hálfleiks bætti Sveinn Aron Guðjohnsen við öðru marki Valsmanna.

Þórsarar svöruðu um hæl með mörkum frá Gunnari Örvari og Kristjáni Erni Sigurðssyni en Valsmenn áttu eftir að bæta við.

Þar var að verki Sigurður Egill á ný með öðru marki sínu og þriðja marki Vals en Sindri Björnsson gulltryggði sigur Valsmanna stuttu síðar.

Þetta mótlæti virtist fara eitthvað í heimamenn þar sem tveir Þórsarar voru reknir af velli á seinustu tíu mínútum leiksins.

Sigurinn þýðir að Valsmenn eru öruggir með sæti sitt í 8-liða úrslitum Lengjubikarsins og þýðir sömuleiðis að Skagamenn eru komnir í átta liða úrslitin en þessi tvö lið mætast í lokaumferðinni.

Upplýsingar um markaskorara koma frá fotbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×