Erlent

Sópar náttúruverndarlögum Obama undir teppið

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, mun skrifa undir forsetatilskipun um að fella niður ýmis lög Barack Obama, forvera Trump, sem snúa að náttúruvernd. Tilskipunin felur meðal annars í sér að breytingar á lögum um losun gróðurhúsalofttegunda, notkun kola til rafmagnsframleiðslu og breytingar á því að ríkisstarfsmenn verði að taka mið af hnattrænni hlýnun við ákvarðanir sínar.

Talsmaður Hvíta hússins, sem kynnti blaðamönnum Washington Post tilskipunina í dag, sagði hana til marks um stefnu Trump að gera Bandaríkin sjálfstæð varðandi orkuframleiðslu. Hann sagði einnig að þegar kæmi að hnattrænni hlýnun ætlaði ríkisstjórnin sér að taka eigin skref.

Ekkert er minnst á Parísarsáttmálann samkvæmt WP. Bandaríkin skrifuðu undir sáttmálann árið 2015 og samkvæmt honum þarf ríkið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 26 til 28 prósent fyrir árið 2025, miðað við losunina eins og hún var árið 2005.

Meðlimir ríkisstjórnar Trump eru ekki sammála um aðild Bandaríkjanna að sáttmálanum. Í kosningabaráttunni hét Trump því að draga Bandaríkin úr sáttmálanum sem hann sagði koma niður á landinu.

Árið 2012 hélt Trump því fram að hnattræn hlýnun væri gabb Kínverja til að draga úr samkeppnishæfi Bandaríkjanna.

Reglur Obama hafa verið óvinsælar meðal repúblikana og í ríkjum þar sem þeir hafa stjórnað. Hæstiréttur Bandaríkjanna setti reglurnar til hliðar um tíma í fyrra en fjölmörg dómsmál hafa verið höfðuð gegn þeim.

Undanfarnar vikur hefur Trump einnig fellt niður reglur Obama um námuvinnslu, boranir og fleira. Þá felldi hann niður reglugerð sem meinaði námufyrirtækjum að sturta úrgangi í ár. Þar að auki hefur ríkisstjórnin gefið í skyn að hún vilji og ætli sér að endurskoða reglugerðir um eyðslu nýrra bíla.

Trump ætlar sér einnig að draga úr fjárveitingum til Umhverfisstofnunar Bandaríkjanna um þriðjung.

Nýr yfirmaður stofnunarinnarScott Pruitt, hefur gagnrýnt stofnunina harðlega í gegnum tíðina. Þá hefur hann sagt að hann trúi því ekki að koltvísýringur hafi áhrif á hækkandi hitastig jarðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×