Erlent

Stefnir í nýjar deilur Hvíta hússins og þingmanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur beðið þingið um aukin fjárútlát til varnarmála og byggingu veggs á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Hann vill að fjárútlátin verði sett í frumvarp sem ætlað er að veita ríkisstofnunum fjárveitingar frá 29. apríl til 30. september. Þingmenn Repúblikanaflokksins eru þó ekki sannfærðir um að það sé góð hugmynd.

Samkvæmt heimildum Washington Post er um 33 milljarða dala að ræða, sem Trump vill fá til varnarmála og vegna veggsins. Þá vill hann skera niður um 18 milljarða á öðrum svæðum eins og í læknavísindum.

Demókratar hafa hótað því að koma í veg fyrir að frumvarpið fari í gegn, ef fjárveiting til veggjar Trump sé inn í því. Einhverjir repúblikanar hafa einnig lýst yfir andstöðu sinni. Þar með gæti starfsemi stjórnvalda í Bandaríkjunum stöðvast og eru þingmenn Repúblikanaflokksins líklegir til að hafna beiðni Trump.

Nokkrir af æðstu þingmönnum flokksins hafa sagt að frekar verði samið um fjárútlát vegna veggjarins seinna á árinu.

Í kosningabaráttunni hét Trump því ítrekað að hann myndi byggja „glæsilegan“ vegg á landamærum ríkjanna og að Mexíkó myndi greiða fyrir vegginn. Æðstu ráðamenn þar segja það hins vegar ekki koma til greina. Nú hefur Trump gefið í skyn að Bandaríkin muni borga veginn og að Mexíkó muni borga þeim til baka. Forseti öldungaþingsins, Mitch McConnel sagði hins vegar fyrr í mánuðinum að það kæmi ekki til greina.

Beiðni Trump gæti leitt til annarra deilna á milli Hvíta hússins og þingsins í kjölfar þess að ekki tókst að ná atkvæðum fyrir breytingar Trump og Paul Ryan á heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×