Skoðun

Vaxtalækkun er knýjandi

Halldór Benjamín Þorbergsson skrifar
Tilefni greinar forsvarsmanna samtaka helstu útflutningsgreina landsins í Fréttablaðinu í gær er vaxtaákvörðun Seðlabanka Íslands en háir vextir og sterkt gengi hafa sett útflutningsgreinarnar í graf­alvarlega stöðu. Rekstrarskilyrði þeirra hafa tekið stakkaskiptum til hins verra á undanförnum misserum vegna gengisstyrkingar og mikilla launahækkana.

Efnahagslífið hefur notið mikillar velgengni á undanförnum árum. Verðmætasköpun atvinnulífsins og lífskjör landsmanna eru betri en nokkru sinni. Mikill vöxtur útflutningstekna þjóðarbúsins og afgangur í viðskiptum við útlönd eru rót velgengninnar. Afgangurinn hefur nýst til grynnkunar erlendra skulda. Hagvöxtur er heilbrigður því hann stafar af auknum útflutningi og vaxandi einkaneyslu sem byggir á kaupmætti heimilanna, en ekki söfnun skulda eins og oftast áður.

SA fagna þeirri losun fjármagnshafta sem tók gildi í vikunni og leiðir vonandi til betra jafnvægis í gengi krónunnar. En meira þarf til svo styrking gengis krónunnar stöðvist og setji útflutningsgreinarnar ekki í þrot, þ.e. myndarleg vaxtalækkun Seðlabankans. Samhliða skapast sterkur hvati fyrir íslenska lífeyrissjóði til að auka verulega fjárfestingar sínar í erlendum gjaldmiðlum. Sú ákvörðun er skynsamleg fyrir sjóðsfélaga lífeyrissjóðanna og mun auka áhættudreifingu sjóðanna til lengri tíma. Hagsmunir almennings, fyrirtækja og lífeyrissjóða eru samofnir hvað varðar stöðugt og raunhæft gengi krónunnar.

Viðvarandi vaxtamunur við útlönd, sem býður fjárfestum upp á margfalda ávöxtun miðað við önnur ríki, leiðir til viðvarandi ásóknar í innlenda vexti sem óhjákvæmilega stuðlar að styrkingu krónunnar. Vaxtalækkun styður við atvinnulífið og gagnast heimilum með beinum hætti. Núna eru skilyrði hagfelld til að taka næsta skref í efnahagslegri framþróun þjóðarinnar.

Meginrök talsmanna hárra vaxta er þensla í efnahagslífinu. Áhrif hárra vaxta Seðlabankans á einkaneyslu almennings og fjárfestingu fyrirtækja eru óviss vegna flókinnar miðlunar stýrivaxta út í hagkerfið. Hins vegar er óumdeilt að háir vextir eru veigamikill þáttur í styrkingu krónunnar. Kalt hagsmunamat leiðir til þeirrar niðurstöðu að lægri raunvextir stuðla að efnahagslegri velgengni til lengri tíma.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×