Innlent

Mál Birnu til héraðssaksóknara á föstudag

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Einn maður er grunaður um að hafa ráðið Birnu Brjánsdóttur bana.
Einn maður er grunaður um að hafa ráðið Birnu Brjánsdóttur bana. vísir/eyþór
Rannsókn á hvarfi og andláti Birnu Brjánsdóttur er á lokametrunum. Málið verður afhent héraðssaksóknara á föstudag en embættið fer með ákæruvald í málinu.

Þetta staðfestir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn í samtali við fréttastofu. „Það er lokayfirheyrsla eftir og frágangur og málinu verður svo skilað til héraðssaksóknara,“ segir hann.

Þá hefur lögregla fengið niðurstöður úr lífsýnarannsóknum, sem gerðar voru í Svíþjóð, en Grímur segist ekki geta tjáð sig um hvers eðlis þær eru að svo stöddu.

Einn maður, skipverji af togaranum Polar Nanoq, er grunaður um að hafa ráðið Birnu bana í janúar síðastliðnum. Sá maður sætir nú gæsluvarðhaldi en það mun að óbreyttu renna út í lok mánaðar.

Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi í níu vikur samfleytt, en lögum samkvæmt má ekki halda sakborningi lengur í gæsluvarðhaldi en í tólf vikur nema ákæra hafi verið gefin út gegn honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×