Erlent

Sessions fundaði tvisvar með sendiherra Rússlands

Samúel Karl Ólason skrifar
Enn eitt hneykslismálið skekur nú Washington en nú er komið í ljós að Jeff Sessions, dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Donalds Trump, hitti rússneska sendiherrann í WashingtonSergey Kislyak, að minnsta kosti tvisvar á síðasta ári þegar kosningabarátta Trumps stóð yfir. Leyniþjónustur Bandaríkjanna segja að á þeim tíma þegar fundirnir fóru fram hafi tilraunir Rússlands til að hafa áhrif á kosningarnar staðið sem hæst.

Sessions, sem á þeim tíma var öldungadeildarþingmaður, greindi ekki frá þessu þegar hann var yfirheyrður af þingmönnum áður en hann tók við embætti ráðherra. Það sem meira er, þá var hann spurður nákvæmlega þeirrar spurningar þegar hann mætti fyrir þingnefndina sem að lokum samþykkti hann sem ráðherra.

Þá sagðist Sessions „ekki hafa átt í samskiptum við Rússland“.

Washington Post greinir frá fundum Sessions og sendiherrans en sjálfur segir ráðherrann nú að þeir hafi aldrei talað um kosningabaráttuna eða TrumpNancy Pelosi leiðtogi demókrata á þingi hefur þegar sakað ráðherrann um að ljúga undir eiðstaf og krefst þess að hann segi af sér.

Fyrst eftir frétt Washington Post sendi Sessions frá sér tilkynningu þar sem hann sagðist „aldrei hafa hitt rússneska embættismenn til að ræða kosningabaráttuna.“ Þessar fregnir væru rangar. Því hefur þó ekki verið haldið fram að þeir hafi rætt kosningabaráttuna, einungis að þeir hafi fundað tvisvar sinnum.

Sjá einnig: Þótti ekki hæfur í dómarasæti en er nú dómsmálaráðherra.

Talskona Sessions segir hann hafa fundað með 25 sendiherrum í fyrra, vegna stöðu sinnar í hermálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings. Hvíta húsið slær á svipaða strengi og segir ekkert varhugavert við fundi Sessions og Kislyak í fyrra og að um „nýjustu árás demókrata“ væri að ræða.

Sem dómsmálaráðherra, er Sessions yfirmaður Alríkislögreglu Bandaríkjanna og dómsmálaráðuneytinu, sem hafa verið að rannsaka meint tengsl framboðs Donald Trump við yfirvöld í Rússlandi. Sessions hefur þvertekið fyrir að víkja tímabundið til hliðar á meðan rannsókninni stendur.

Demókratar segja að þessar nýjustu vendingar séu enn ein sönnun þess að stofna þurfi óháða rannsóknarnefnd til þess að komast til botns í meintum afskiptum Rússa að forsetakosningunum og aðkomu framboðs Trump.

Minnst tveir repúblikanar hafa tekið undir það.

Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trump, þurfti að segja af sér í síðasta mánuði vegna samskipta sinna við Sergey Kislyak, sendiherran rússneska. Flynn og Kislyak höfðu fundað um viðskiptaþvinganir Obama gegn Rússum, sem settar voru á vegna afskipta Rússa af kosningunum.

Í ljós kom að Flynn afvegaleiddi Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, um fund sinn og Kislyak og sagði rangt frá fundi þeirra.

Slíkt samtal hefði brotið gegn lögum um að almennir borgarar megi ekki taka beinan þátt í utanríkisstefnu Bandaríkjanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×