Erlent

Sessions segir sig frá rannsókn á afskiptum Rússa af bandarísku kosningunum

Atli Ísleifsson skrifar
Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, segist munu segja sig frá rannsókn á meintum afskiptum Rússa af kosningabaráttunni í Bandaríkjunum á síðasta ári.

Þetta kom fram á blaðamannafundi í bandaríska dómsmálaráðuneytinu sem Sessions boðaði til fyrr í kvöld.

Sessions sagðist þar hafa svara spurningum þingmanna um samskipti við fulltrúa Rússlandsstjórnar við yfirheyrslur eftir bestu vitund, en eftir samráð við siðanefnd hafi hann ákveðið að segja sig frá umræddri rannsókn.

Washington Post greindi frá því í gær að Sessions hafi að minnsta kosti í tvígang hitt sendiherra Rússlands á síðasta ári, á sama tíma og kosningabarátta Donald Trump stóð yfir og á þeim tíma þegar tilraunir Rússlands til að hafa áhrif á kosningarnar eru sagðar hafa staðið sem hæst.

Sessions, sem á þeim tíma var öldungadeildarþingmaður, greindi ekki frá þessu þegar hann var yfirheyrður af þingmönnum áður en hann tók við embætti ráðherra. Þar var hann spurður þeirrar spurningar hvort hann hafi fundað með fulltrúum Rússlandsstjórnar, en sagði þá „ekki hafa átt í samskiptum við Rússa“.

Trump sagði fyrr í dag að hann hafi ekki vitað af samskiptum Sessions við Rússa, en lýsti þó yfir þeirri skoðun sinni að ráðherrann ætti ekki að segja sig frá rannsókninni.

Sessions greindi einnig frá því í kvöld að hann muni betur skýra svör sín við yfirheyrslur þingmanna á næstu dögum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×