Körfubolti

Jóhann: Menn þurfa að taka ábyrgð

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jóhann Ólafsson þjálfari Grindavíkur kallar eftir því að menn taki á sig meiri ábyrgð inni á vellinum.
Jóhann Ólafsson þjálfari Grindavíkur kallar eftir því að menn taki á sig meiri ábyrgð inni á vellinum.
Jóhann Ólafsson þjálfari Grindavíkur kallaði eftir að menn í sínu liði tækju á sig ábyrgð og sagði að varnarleikurinn gegn Stjörnunni í kvöld hefði verið slakur.

„Við erum nánast allan leikinn nánast „off“ varnarlega. Það eru ekki nema 2-3 mínútur í sitt hvorum hálfleiknum þar sem við náum alvöru ákefð í vörninni. Við erum að fá á okkur 96 stig, yfir 20 stig í hverjum leikhluta og á móti svona góðu liði eins og Stjörnunni er það ekkert að ganga upp,“ sagði Jóhann þegar Vísir spjallaði við hann að leik loknum í kvöld.

Lykilmenn eins og Lewis Clinch og Dagur Kár Jónsson náðu sér ekki á strik hjá Grindavík í kvöld en Jóhann talaði um að allt liðið þyrfti að taka sig á.

„Heilt yfir hittum við illa. Það var ákveðið vonleysi í þessu. Mínir menn héldu áfram að reyna og við höfum talað um í allan vetur að taka leik okkar upp á næsta stig. Á meðan mínir hafa ekki kjark eða dug til að slást við þessi bestu lið og við erum hvað eftir annað að gera okkur seka um aulamistök þá erum við ekkert að fara að gera neitt.“

„Það eru tveir leikir eftir og svo þessi úrslitakeppni. Við þurfum bara að fara að girða okkur í brók,“ sagði Jóhann og vildi meina að hans menn væru ekki að fara eftir leikskipulaginu sem sett væri upp.

„Ég væri til í að sjá mína menn spila heilan leik þar sem þeir halda sig við leikskipulag, sérstaklega varnarlega, það væri fróðlegt. Sömuleiðis að taka ábyrgð á því sem verið er að gera og leggja upp. Ef það er sagt eitthvað við menn þá er bara svarað „ég veit, ég veit“ og einhverjar afsakanir í staðinn fyrir að taka ábyrgð á því sem er verið að gera. Það þarf að gera hlutina eins og menn,“ sagði Jóhann að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×