Körfubolti

Hrafn: Sárt að tapa líka utan vallar

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hrafn á hliðarlínunni í kvöld.
Hrafn á hliðarlínunni í kvöld. vísir/stefán
„Þessi leikur tapast á því hvernig við komum inn í hann og þetta er orðið þreytt,“ sagði hundsvekktur þjálfari Stjörnunnar, Hrafn Kristjánsson, eftir tapið gegn Haukum í kvöld.

„Ég skil vel að það sé verið að spyrja mig af hverju við komum svona inn í leikinn. Ég er kannski að hrauna yfir leikmenn fara að koma illa inn í leikinn en við þurfum allir að skoða þetta. Kannski þarf að haga undirbúningi öðruvísi. Ég hélt að við gerðum okkur grein fyrir mikilvægi leiksins.“

Það var líka mikið undir hjá Stjörnunni í kvöld en er vandamálið andlegt því ekki vantar gæðin í liðið?

„Það er stundum sagt að það sé versti óvinur sköpunargáfunnar sé sjálfsefi. Það virðist vera stutt í að fólk fari að hugsa um sín vandamál inn á vellinum og nái ekki að tengja saman sem lið,“ segir Hrafn og viðurkennir að hans lið hafi tapað í baráttunni og svo hjálpaði ekki að Kaninn hans var nær meðvitundarlaus í kvöld. Hafði ekkert fram að færa.

„Það er hárrétt. Þetta hefur verið köflótt hjá honum. Hann fer inn í skelina og hættir að taka af skarið.“

Garðbæingar voru undir líka utan vallar og það fannst þjálfaranum líka miður.

„Ég er væntanlega að taka smá áhættu með því að tala um þetta núna. Ég elska félagið, stuðningsmennina og Garðabæ. Ég hef farið í gegnum ótrúlega mörg ævintýri með þeim og mér finnst sárt að mæta hingað og  verða líka vel undir í stúkunni,“ segir Hrafn.

„Við erum á leið í úrslitakeppnina og ég vona innilega að fólk haldi enn í trúna og geri sér grein fyrir að það hjálpi líka. Ábyrgðin liggur á mér og leikmönnum en það gefur okkur mikið aukalega er maður finnur hvatninguna er það gengur illa. Ég vona að það verði hvítt og blátt í stúkunni í úrslitakeppninni.“

Liðið er enn án Justin Shouse og Hrafn bindur vonir við að hann snúi aftur í úrslitakeppninni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×