Fótbolti

Sturlaðar staðreyndir um sigur Barcelona í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Barcelona-menn fagna.
Barcelona-menn fagna. Vísir/Getty
Barcelona er komið áfram í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar. Það þarf ekki að koma neinum á óvart að eitt besta lið heims fari áfram en hvernig Börsungar fóru að því verður hér eftir hluti af knattspyrnusögunni.

Barcelona þurfti að vinna upp 4-0 tap fyrir Paris Saint Germain í fyrri leiknum og tókst það eftir ótrúlegan 6-1 sigur á Nou Camp í gærkvöldi þar sem þrjú markanna komu í blálokin.

Yfirburðir Barcelona í leiknum voru miklir og undir lokins var pressan ótrúleg. Leikmenn Parísarliðsins hrökkluðust hreinlega undan sóknarpressu Barcelona og Börsungum tókst hið ómögulega dyggilega studdir af blóðheitum stuðningsmönnum sínum.

Twitter-síða Squawka Football er dugleg að birta allskonar tölulegar staðreyndir um alþjóðlega fótoboltann og starfsmenn síðunnar hafa verið í yfirvinnu eftir sigur Barcelona í gærkvöldi.

Þar á meðal eru nokkrar sturlaðar staðreyndir. Önnur þeirra snýr að þriggja manna varnarlínu Barcelona-liðsins sem er vissulega vön því að spila framarlega á vellinum en þó sjaldan eins framarlega og í gær.

Varnarlínan var skipuð þeim Gerard Piqué, Samuel Umtiti og Javier Mascherano og þessir þrír voru meira inn á vallarhelmingi Paris Saint Germain en inn á sínum eigin vallarhelmingi í leiknum í gær. Hitakortið hjá þeim er líkara framherjum heldur en varnarmönnum.

Squawka tekur einnig saman magnaða tölfræði eftir 85. mínútu leiksins. Barcelona náði þá sex skotum, skoraði þrjú mörk og leikmenn Parísarliðsins náðu aðeins fjórum heppnuðum sendingum. Það sem gerir þessar fjórar sendingar enn ótrúlegri að þrjár þeirra voru upphafsspyrna eftir að Barcelona-liðið hafði skorað.

Hér fyrir neðan má sjá þessar sturluðu staðreyndir um leikinn í gær en þessi sögulegu úrslit kalla svo sannarlega á öðruvísi tölfræði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×