Körfubolti

Hundrað prósent leikur Viðars var ekki alveg hundrað prósent | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viðar Ágústsson átti frábæran leik með Tindastól á Sauðárkróki í gærkvöldi þegar Stólarnir unnu 23 stiga sigur á Stjörnunni í mikilvægum leik í toppbaráttu Domino´s deildar karla.

Viðar skoraði 22 stig á 27 mínútum í leiknum og Stólarnir unnu þessar 27 mínútur sem hann spilaði með 30 stigum. Viðar er vanalega til fyrirmyndar hvað varðar varnarleik og baráttu en að þessu sinni raðaði hann líka niður skotunum fyrir utan.  Það er líka gaman að sjá strákinn vera aftur kominn á fullt eftir að hafa glímt við meiðsli í nær allan vetur.

Viðar Ágústsson er skráður með hundrað prósent þriggja stiga skotnýtingu í leiknum það er að öll sex þriggja stiga skotin hans hafi ratað rétta leið.

Tveir höfðu komist nálægt því. Jón Arnór Stefánsson hitti úr 6 af 7 þriggja stiga skotum sínum í sigri KR á Króknum í janúar og Tómas Heiðar Tómasson nýtti 7 af 8 þriggja stiga skotum sínum í sigri Stjörnunnar á Keflavík.

Viðar var þar með fyrsti leikmaðurinn í Domino´s deild karla í vetur sem nær að skora sex eða fleiri þrista án þess að klikka á skoti fyrir utan þriggja stiga línuna. Eða svo héldum við.

Þegar betur var að gáð kom þó í ljós að Viðar klikkaði á einu þriggja stiga skoti í leiknum. Það skot var hinsvegar skráð sem tveggja stiga skot en eins og sést á myndbandinu í spilaranum hér fyrir ofan þá var það greinilega tekið fyrir utan þriggja stiga línuna.

Hvort þessu verður breytt verður að koma í ljós en þangað til er Viðar Ágústsson sá eini í Domino´s deildinni með 6 af 6 leik í þriggja stiga skotum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×