Erlent

Opinbert plakat Trump tekið úr sölu vegna stafsetningarvillu

Samúel Karl Ólason skrifar
Hér má sjá villuna umræddu.
Hér má sjá villuna umræddu.
Bókasafn þings Bandaríkjanna hefur tekið opinbert plakat Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, úr sölu eftir að þeim var bent á stafsetningar- eða innsláttarvillu. Eitt o vantaði á plakatið.

Á plakatinu stóð: „No dream is too big, no challenge is to great. Nothing we want for the future is beyond our reach.“

í annarri setningu ætti að standa „is too great“, eins og í þeirri fyrstu.

Samkvæmt AP fréttaveitunni var fljótt tekið eftir villunni og var athygli vakin á henni á samfélagsmiðlum. Starfsmenn bókasafnsins urðu varir við gagnrýnina og tóku plakatið úr sölu. Internetið gleymir þó engu, eins og sagt er.

Hægt er að sjá sölusíðu plakatsins á vefnum Archive.org.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem að stafsetningarvillur stinga upp í kollinum í kringum nýja ríkisstjórn Trump og hann sjálfan. Í desember tísti hann um að Kína hefði lagt hald á fjarstýrðan kafbát sem að Bandaríkin eiga.

Hann sagði þjófnað Kínverja vera án fordæmis (e. Unprecedented) en í fyrsta tístinu skrifaði hann óvart „Unpresidented sem ef til vill væri hægt að þýða sem „óforsetaður“.

Eftir innsetningarathöfn Trump í síðasta mánuði tísti hann mynd af athöfninni sem hafði verið hengd upp í Hvíta húsinu. Á myndinni stóð að hún hefði verið tekin 21. janúar, sem var degi eftir innsetningarathöfn Trump. Þann dag gengu þúsundir mótmælenda um götur borgarinnar.

Nú um helgina gerðu starfsmenn Menntamálaráðuneytis Bandaríkjanna villu í nafni rithöfundarins og mannréttindasinnans W.E.B DuBois á Twitter. Eftir að hafa leiðrétt villuna var gerð stafsetningarvilla í afsökunarbeiðni vegna fyrri villunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×