Fótbolti

Sverrir Ingi og félagar rúlluðu upp Andalúsíuslagnum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sverrir Ingi Ingason er að gera flotta hluti á Spáni.
Sverrir Ingi Ingason er að gera flotta hluti á Spáni. vísir/getty
Sverrir Ingi Ingason, landsliðsmiðvörður í fótbolta, og félagar hans í Granada pökkuðu Real Betis saman, 4-1, í spænsku 1. deildinni í kvöld.

Sigurinn var hriklega mikilvægur fyrir Granada sem er í harðri fallbaráttu og ekki var minna sætt fyrir heimamenn að vinna svona stóran sigur á öðru Andalúsíuliði.

Mehdi Carcela-Gonzales kom Granada yfir, 1-0, á 18. mínútu og tíu mínútum síðar jók Adrian Ramos forskotið í 2-0.

Andreas Pereira, miðjumaðurinn efnilegi sem er á láni frá Manchester United, kom Granada í 3-0 á 33. mínútu og leikurinn sama og unninn eftir rúman hálftíma.

Adrian Ramos kom Granada í 4-0 á 64. mínútu en Pereira lét reka sig af velli eftir viðskipti við Matias Leiva, leikmann Betis, tveimur mínútum síðar en Betis-maðurinn fékk einnig að sjá rautt.

Petros minnkaði muninn fyrir Betis þegar fimmtán mínútur voru eftir en það var alltof lítið og alltof seint og frábær sigur Granada í höfn.

Granada er búið að vinna tvo af síðustu þremur leikjum liðsins með Sverri Inga í þriggja manna miðvarðalínu en það er nú með 16 stig, tveimur stigum frá öruggu sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×