Innlent

Leitin að Birnu jók styrki Landsbjargar

Snærós Sindradóttir skrifar
Fjölmargir leituðu að Birnu.
Fjölmargir leituðu að Birnu. Vísir/Vilhelm
Ríflega 1.800 manns hafa skráð sig sem mánaðarlega stuðningsaðila Slysavarnafélagsins Landsbjargar síðan aðkoma björgunarsveitanna hófst að leitinni að Birnu Brjánsdóttur. Aldrei hafa fleiri skráð sig í stuðningskerfi Landsbjargar á jafn skömmum tíma eða vegna einstaks máls.

Þá hafa um fjórar milljónir króna safnast í einstökum styrkjum til Landsbjargar. Stærsti styrkurinn kemur frá Polar Seafood, fyrirtækinu sem gerir út grænlenska togarann Polar Nanoq, eða um 1,6 milljónir króna. Næst á eftir eru styrkir frá einstaklingum sem hafa verið töluvert margir og flestir í kringum 500 til 1.500 krónur.

„Fyrir þetta erum við afskaplega þakklát. Okkur skortir eiginlega orð fyrir þennan stuðning,“ segir Þorsteinn G. Guðmundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar. „Þjóðin hefur fylgst með þessu máli og Birna blessunin á hlut í hjarta þjóðarinnar. Foreldrar hennar beindu því til almennings að vera ekki með fjársöfnun til þeirra heldur láta fé af hendi rakna til björgunarsveitanna. Þetta er miklu meira en við höfum séð áður sem við getum tengt einhverjum einstökum viðburði eða aðgerð,“ segir Þorsteinn.

Nærri 800 björgunarsveitarmenn komu að leitinni að Birnu Brjánsdóttur sem stóð yfir frá mánudeginum 16. janúar til sunnudagsins 22. janúar, þegar Birna fannst látin við Selvogsvita á sunnanverðum Reykjanesskaganum. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×