Bílar

Lúxus færður á hærra stig

Finnur Thorlacius skrifar
Umhverfi við hæfi. Lexus IS 300h eftir andlitslyftingu í Róm á dögunum.
Umhverfi við hæfi. Lexus IS 300h eftir andlitslyftingu í Róm á dögunum.
Reynsluakstur – Lexus IS 300h

Núverandi kynslóð Lexus IS 300h er sú þriðja og kom fram árið 2013. Því má segja að komið hafi verið að andlitslyftingu á þessum eigulega bíl og einmitt það sem Lexus hefur nú gert. Í tilefni þess var bílablaðamönnum alls staðar að úr heiminum boðið að prófa bílinn í Róm á Ítalíu. Ekki telst það slæmt staðarval og hreint ágætlega við hæfi fyrir svo virðulegan bíl. Undirritaður hafði prófað núverandi kynslóð Lexus IS 300h í ítarlegum reynsluakstri fyrir hartnær fjórum árum síðan og líkað einstaklega vel. En skildi mikið hafa breyst síðan þá?

Hvað ytra útlit bílsins varðar er breytingin ekki svo mikil, helst þó á framanverðum bílnum en hann hefur fengið enn stærra grill, ný aðalljós og línurnar á hliðunum hafa fengið enn sterkari svip. Í raun þarf glöggskyggni til að greina á milli fyrri gerðar og þeirrar nýju frá flestum hliðum, en til hvers að breyta því sem svo vel leit út áður. Lexus IS 300h var og er mjög fallegur bíll og fágað útlit hans er algjörlega í stíl við gæði hans að öðru leiti því hér fer mikill eðalfákur sem þó verður að teljast af minni gerð lúxusbíla, enda á hann mun stærri bræður í formi GS og LS bílanna.

Gerbreytt fjöðrun og stýring

Breytingarnar á andlitslyftum Lexus IS 300h eru mun meira fólgnar í fjöðrun bílsins og stýringu, tæknibúnaði og öryggisbúnaði, en í útliti hans. Fjöðrun bílsins er algerlega endurhönnuð og hver íhlutur þar nýr, allt til að auka á aksturshæfni bílsins og reyndar í leiðinni til að létta bílinn. Stýrisbúnaður bílsins hefur einnig verið endurhannaður og fyrir vikið er stýringin nákvæmari og betri og stífni bílsins hefur aukist umtalsvert með endurhannaðri fjöðrun. Fyrir þessu fannst mjög greinilega og því hefur hinn ljúfasti akstursbíll orðið að flennigóðu aksturstæki.

Feykilega gaman var að aka bílnum í nágrenni höfuðborgarinnar og hlykkjóttir vegirnir urðu að uppáhaldi því henda mátti bílnum á dágóðri ferð í beygjurnar án þess að nokkrum væri ofboðið og þá allra síst veggripi bílsins. Sérstaka athygli vakti hve bíllinn virkaði stífur og þéttur en Lexus segir að með breyttum fjöðrunar- og stýrisbúnaði sem er að mestu leiti úr áli hafi stífni bílsins aukist um 49% og munar um minna. Svo er einnig gaman að finna muninn á akstri bílsins eftir akstursstillingum, en sportlegastur er hann í Sport S+ stillingunni, en velja má um 5 stillingar.

Fáránlega lág eyðsla

Vélbúnaður í IS 300h hefur ekki breyst með þessari andlitslyftingu, en í bílnum er áfram 4 strokka og 2,5 lítra bensínvél og rafmótorar Hybrid kerfisins auka afl hennar frá 181 hestafli í 232 hestöfl. Þessi vélbúnaður dugar til að koma bílnum úr kyrrstöðu í 100 km hraða á 8,3 sekúndum, svo hér fer enginn letingi. Lexus IS má einnig fá án Hybrid kerfis og þá með 2,0 lítra vél með forþjöppu, 245 hestafla og heitir bíllinn þá IS 200t. Sá bíll er sneggri, eða aðeins 7,0 sekúndur í hundraðið, en ekki eins sparneytinn bíll og dýrari sökum hærri mengunartölu. Því hefur IS 300h bíllinn svo til eingöngu selst hér á landi og má búast við því að svo verði áfram.

Ef taka ætti sérstaklega út einn af fjölmörgum kostum Lexus IS 300h þá væri það fáránlega lág eyðsla bílsins. Uppgefin eyðsla hans í blönduðum akstri er 4,2 lítrar og bæði af fyrri reynslu og reynsluakstrinum nú má nefna að hreinlega er erfitt að ná eyðslunni uppfyrir 6 lítra þó vel sé tekið á bílnum. Það er fáheyrt fyrir svo myndarlegan bíl. Mengunartalan er líka athygliverð, eða 97 g CO2/km.

Ríkulegt innanrými

Sem fyrr er innanrými Lexus IS 300h ríkulegt og fágað og fátt til sparað í efnisvali. Breytingarnar eru þó ekki mjög dramtískar, en fyrst er þó að nefna að upplýsingaskjárinn á miðju mælaborðinu hefur stækkað úr 7 tommum í 10,3 tommur. Minniháttar breytingar eins og betri staðsetning flöskuhaldara, betri armhvíla og lasergeislaskorinn harðviður og fleiri úthugsuð smáatriði bæta svo enn um betur. Frábært Yamaha hljóðkerfi setur svo rúsínuna á pylsuendann og undirstrikar að hér fer bíll í lúxusflokki og enn betur má reyndar gera með sérpöntuðu Mark Levinson hljóðkerfi með 15 hátölurum og þá er bíllinn orðinn að hljómleikahöll.

Rétt er að benda á það að IS bíllinn var hannaður fyrir Evrópumarkað og uppfyllir ströngustu kröfur Evrópubúa, en flestir aðrir fólksbílar Lexus eru hannaðir með Ameríkumarkað í huga. Lexus hefur selt eina milljón IS bíla frá tilkomu hans árið 1999 og víst er að enn á hann eftir að seljast vel, bæði hér á landi og annarsstaðar. Ekki sakar verð hans, eða 5,8 milljónir króna og fyrir það fæst mikið, akstursánægja og endalaus lúxus. Erfitt er að draga fram ókosti þessa bíls en sportlegri aksturseiginleika má finna í sumum lúxusbílum í sama stærðarflokki lúxusbíla.



Kostir: 
Útlit, búnaður, verð, innrétting

Ókostir: Finna má sportlegri aksturseiginleika samkeppnisbíla

Bensínvél með Hybrid, 223 hestöfl

Afturhjóladrif

Eyðsla frá: 4,2 l./100 km í bl. akstri

Mengun: 97 g/km CO2

Hröðun: 8,3 sek.

Hámarkshraði: 200 km/klst

Verð frá: 5.810.000 kr.

Umboð: Lexus á Íslandi

Lexus gengur út á lúxus og engu er til sparað í innréttingunni.
Sportlegar línur leika um Lexus IS 300h.
Myndarlegur frá öllum sjónarhornum.
Ekkert smá flott sæti.
Væsir ekki um neinn í þessu innanrými.





×