Íslenski boltinn

Arnar Sveinn farinn heim í Val

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnar Sveinn Geirsson er kominn heim.
Arnar Sveinn Geirsson er kominn heim. mynd/valur
Arnar Sveinn Geirsson er búinn að semja við Pepsi-deildarlið Vals til eins árs en þetta kemur fram á heimasíðu félagsins. Hann kemur til Vals frá Fram, en hann spilaði með Safamýrarfélaginu í Inkasso-deildinni á síðustu leiktíð.

Arnar Sveinn er uppalinn Valsari og af miklum Valsættum en faðir hans er landsliðsþjálfarinn í handbolta, Geir Sveinsson. Arnar þreytti frumraun sína með Val í efstu deild árið 2008 en hann á að baki 74 leiki fyrir Valsmenn og skorað í þeim átta mörk.

„Mér líst hrikalega vel á bæði þjálfarana, teymið og leikmannahópinn. Ég auðvitað þekki svæðið, teymið frábært og svo spilaði ég auðvitað með Bjössa. Óli hefur tekið vel á móti mér ásamt Bjössa og æfingarnar verið virkilega góðar það sem af er,“ segir Arnar Sveinn.

„Valur er auðvitað stórt félag á Íslandi og það eru alltaf kröfur á liðið. Ég er auðvitað ekki búinn að vera með liðinu lengi en finnst samt sem áður vera stígandi í hópnum á æfingum og fullt af tíma og leikjum framundan til að fínpússa þá hluti sem til þarf.“

Arnar Sveinn gæti spilað sinn fyrsta leik fyrir Val í þrjú ár annað kvöld þegar liðið mætir Víkingi í undanúrslitum Reykjavíkurbikarsins í Egilshöllinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×