Innlent

Mennirnir hafa verið færðir á Litla-Hraun

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Mennirnir voru úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald í héraðsdómi í gær.
Mennirnir voru úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald í héraðsdómi í gær. vísir/anton brink
Mennirnir tveir sem grunaðir eru um að hafa orðið Birnu Brjánsdóttur að bana hafa verið færðir á Litla-Hraun. Þetta staðfesti Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn, í samtali við Vísi.

Mennirnir tveir eru skipverjar á grænlenska togaranum Polar Nanoq en þeir voru handteknir á miðvikudaginn var og úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald í héraðsdómi í gær.

Mönnunum var haldið í einangrun í húsakynnum lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu fyrst um sinn en ástæðan fyrir því var að lögreglan vildi hafa þá nálægt sér vegna yfirvofandi yfirheyrslna.

„Við vildum tala við þá nokkuð ört til að byrja með og þess vegna töldum við að þörf væri á að hafa þá hér [á lögreglustöðinni]. Það er hins vegar ekki viðunandi aðstaða að hafa menn hér í gæsluvarðhaldi, það verður bara að viðurkennast,“ segir Grímur og bætir við að aðstæðurnar á Litla-Hrauni séu betri.

Vísir greindi frá því í gær að aðstaðan fyrir gæsluvarðhaldsfanga á lögreglustöðinni væri vart boðleg.

Að sögn Gríms verða mennirnir áfram í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni en gæsluvarðhaldsfangar eru yfirleitt vistaðir þar.

Grímur reiknar ekki með að halda yfirheyrslum áfram um helgina.

„Ef eitthvað nýtt kemur upp þá stökkvum við hins vegar til. Við munum halda áfram að vinna úr gögnum og flétta málið,“ segir hann.


Tengdar fréttir

Blóð fannst í Kia Rio bifreiðinni

Einar Guðberg Jónsson, lögreglufulltrúi, staðfestir við fréttastofu að blóðsýni hafi fundist í bílnum og það hafi verið sent út til rannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×