Handbolti

Janus Daði: Fer heim, horfi á leikinn og nýti í eitthvað gott

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Janus Daði fékk dýrmæta reynslu í Frakklandi.
Janus Daði fékk dýrmæta reynslu í Frakklandi. vísir/getty
Janus Daði Smárason var með blendnar tilfinningar eftir tapið gegn Frakklandi í kvöld. Það var frábært að spila fyrir met fjölda áhorfanda en leiðinlegt að vera úr leik.

„Þetta var æðislegt og það er hundfúlt að vera dottnir út. Við hefðum viljað spila svona leiki áfram,“ sagði Janus Daði eftir tapið í Frakklandi í kvöld.

„Við vorum flottir og klaufar að vera ekki yfir í hálfleik. Við töpum boltanum svolítið og þeir refsa. Þeir eru hörku góðir.“

Janus Daði var að stíga sín fyrstu skref með landsliðinu og er  ákveðinn í að læra af reynslunni.

„Helmingurinn í liði okkar er að fá töluvert meiri ábyrgð en áður fyrr. Við þurfum að fá að spila okkur aðeins saman og verða þéttari.

„Ég get tekið rosalega margt úr þessu. Eins og þessi fyrri hálfleikur í kvöld. Ég fékk að koma inn og fékk að djöflast aðeins og tapa boltanum. Ég fer heim og á eftir að horfa á þennan fyrri hálfleik nokkrum sinnum og nýta hann í eitthvað gott,“ sagði Janus sem lét met fjölda áhorfanda ekki slá sig út af laginu.

„Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta bara sjö á móti sjö á 20 sinnum 40 velli. Þegar þú ert inni á vellinum þá skiptir ekki máli hversu margir eru uppi í stúku eða uppi í rjáfri. Það er ógeðslega svekkjandi að þetta ferðalag sé búið og æðislegt að fá að vera hluti af þessum hóp og spila fyrir landið,“ sagði Janus Daði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×