Handbolti

Blaðamaður Extrabladet: Guðmundur á að segja af sér

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur stýrði Dönum í sínum síðasta leik á stórmóti í dag.
Guðmundur stýrði Dönum í sínum síðasta leik á stórmóti í dag. vísir/epa
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska karlalandsliðsins í handbolta, á að segja af sér. Þetta segir Jan Jensen í pistli á vef Extrabladet.

Danir töpuðu óvænt, 27-25, fyrir Ungverjum í 16-liða úrslitum á HM í Frakklandi í dag og eru því úr leik. Fyrir HM tilkynnti Guðmundur að mótið í Frakklandi yrði hans síðasta með danska landsliðið sem hann hefur stýrt frá 2014.

Guðmundur á þó eftir að stýra danska liðinu í nokkrum leikjum í undankeppni EM 2018 áður en hann hættir og Nicolaj Jacobsen tekur við.

Áðurnefndur Jensen vill að Guðmundur segi af sér og Henrik Kronborg, aðstoðarmaður hans, stýri Dönum í leikjunum sem framundan eru í undankeppninni.

Jensen segir þó ólíklegt að Guðmundur geri það, enda þrjóskur maður. Hann bætir því við að virðingin fyrir þjálfurum eigi það til að minnka þegar þeir eru á útleið. Og hann segir danska handknattleikssambandið eigi að sannfæra Guðmund um að hætta.

Jensen segir ennfremur að þótt Guðmundur hafi skilað Dönum Ólympíugulli hafi honum ekki tekist að ná því besta út úr danska liðinu á einu Evrópumeistaramóti og tveimur heimsmeistaramótum.


Tengdar fréttir

Guðmundur og Danir úr leik á HM

Ungverjaland gerði sér lítið fyrir og sló Ólympíumeistara Danmerkur úr keppni á heimsmeistaramótinu í handbolta í Frakklandi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×