Innlent

Forsætisráðherra vottar fjölskyldu og ástvinum Birnu samúð sína

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra vottar fjölskyldu Birnu Brjánsdóttur samúð sína.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra vottar fjölskyldu Birnu Brjánsdóttur samúð sína. vísir/ernir
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir þjóðina sameinast í sorginni nú þegar ljóst er að hið sorglega mál, sem er hvarf Birnu Brjánsdóttur, hefur fengið þann enda sem allir vonuðu að yrði ekki. Þetta segir ráðherrann á Facebook.

„Fyrir rúmri viku kom Birna Brjánsdóttir ekki heim. Síðan hefur hennar verið leitað. Lögreglan hefur unnið þrotlaust að rannsókn málsins, með aðstoð landhelgisgæslu og björgunarsveita. Með þakklæti höfum við fylgst með störfum þeirra. Þau hafa verið vönduð og yfirveguð, sem og samskipti þeirra við almenning og fjölmiðla,“ segir Bjarni.

„Margir hafa lagt leitinni lið og veitt upplýsingar. Þetta sorglega mál hefur snert þjóðina, hreyft við okkur öllum og saman höfum við vonað að það fengi ekki þennan endi. En nú er Birna fundin og við sameinumst í sorginni.“

Viðbragðsteymi og sálfræðingar Rauða krossin hafa haft fjölskyldu Birnu í handleiðslu undanfarna daga og svo verður áfram. Þá minnir Rauði krossinn á Hjálparsímann, 1717.

„Ég votta fjölskyldu og ástvinum Birnu samúð mína,“ segir Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×