Handbolti

HBStatz: Rúnar bestur í sókn og Bjarki Már bestur í vörn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarki Már og Rúnar spiluðu vel á HM.
Bjarki Már og Rúnar spiluðu vel á HM. vísir/getty
Rúnar Kárason var besti sóknarmaður Íslands á HM í Frakklandi og Bjarki Már Gunnarsson besti varnarmaðurinn samkvæmt tölfræðisamantekt HBStatz.

HBstatz fylgdist vel með íslenska landsliðinu á HM í handbolta og tók saman ítarlega tölfræði um frammistöðu leikmanna. Tölfræðin var svo notuð til að gefa leikmönnum Íslands einkunn fyrir frammistöðu sína.

Samkvæmt HBStatz var Rúnar besti sóknarmaður Íslands á HM. Skyttan öfluga fékk 7,7 í einkunn fyrir frammistöðu sína í sókninni.

Rúnar var með 4,8 mörk og 1,8 stoðsendingu að meðaltali í leikjunum sex á HM. Hann skoraði alls 29 mörk, flest allra í íslenska liðinu, og gaf 11 stoðsendingar.

Bjarki Már Elísson fékk næsthæstu sóknareinkunnina (7,1) en hann stimplaði sig vel inn í íslenska liðið á sínu fyrsta stórmóti.

Nafni hans Gunnarsson var besti varnarmaður Íslands á HM samkvæmt einkunnagjöf HBStatz. Bjarki Már fékk 7,8 í varnareinkunn en hann var með 5,2 löglegar stöðvanir, 1,0 stolinn bolta og 0,8 varin skot að meðaltali í leik. Bjarki Már sat uppi í stúku í fyrsta leiknum gegn Spáni en nýtti tækifæri sitt vel þegar kallið kom.

Ólafur Guðmundsson var með næsthæstu einkunina fyrir varnarleikinn, eða 7,3. Ólafur var með flestar löglegar stöðvanir (31) af leikmönnum Íslands á HM. Sjö brottvísanir og sjö víti fengin á sig draga einkunn Ólafs þó niður.

Rúnar er svo með hæstu heildareinkunn, eða 7,3. Næstir koma svo vinstri hornamennirnir Guðjón Valur Sigurðsson og Bjarki Már Elísson með 6,4.

Bestu sóknarmenn Íslands á HM 2017:

1. Rúnar Kárason 7,7

2. Bjarki Már Elísson 7,1

3. Arnór Atlason 7,0

4. Guðjón Valur Sigurðsson 6,9

5. Arnór Þór Gunnarsson 6,7

Bestu varnarmenn Íslands á HM 2017:

1. Bjarki Már Gunnarsson 7,8

2. Ólafur Guðmundsson 7,3

3. Ásgeir Örn Hallgrímsson 6,3

4. Rúnar Kárason 6,3

5. Arnar Freyr Arnarsson 5,9

Bestu leikmenn Íslands á HM 2017 (heildareinkunn):

1. Rúnar Kárason 7,3

2. Guðjón Valur Sigurðsson 6,4

3. Bjarki Már Elísson 6,4

4. Arnór Atlason 6,3

5. Ólafur Guðmundsson 6,3


Tengdar fréttir

HM gefur okkur von um bjartari tíma

Strákarnir okkar sýndu ítrekað á HM að þeir hafa fulla burði til að vera samkeppnishæfir áfram þó svo gullkynslóðin sé að hverfa af sviðinu. Mörg jákvæð skref til framtíðar voru stigin í Frakklandi og á því mun landsliðið græða til lengri tíma. Margir leikmenn stimpluðu sig inn í liðið.

Þetta eru ofboðslega flottir drengir

Þó svo landsliðsþjálfarinn Geir Sveinsson sé svekktur að vera á leið heim þá er hann mjög ánægður með margt hjá íslenska liðinu á HM. Hann lítur björtum augum til framtíðarinnar með drengjum sem hann er afar stoltur af. Breiddin í landsliðinu er orðin meiri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×