Erlent

Utanríkismálanefnd samþykkir utanríkisráðherraefni Trump

Oddur Ævar Gunnarsson og Tryggvi Páll Tryggvason skrifa
Rex W. Tillerson, yfirmaður olíurisans Exxon, verður utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Rex W. Tillerson, yfirmaður olíurisans Exxon, verður utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Utanríkismálanefnd öldungadeildar bandaríska þingsins hefur samþykkt tillögu Donalds Trumps, um að gera Rex Tillerson að utanríkisráðherra landsins. BBC greinir frá.

Ellefu nefndarmenn Repúblikana kusu með tillögunni, en tíu nefndarmenn Demókrata kusu gegn henni.

Marco Rubio, þingmaður Repúblikana og fyrrverandi forsetaefni Repúblikana hafði haft miklar efasemdir um áherslur Tillerson í utanríkismálum en kaus að lokum með tillögunni.

Fjöldi þingmanna Repúblikanaflokksins höfðu áður lýst yfir áhyggjum sínum af nánum tengslum Tillerson við stjórnvöld í Moskvu, en Tillerson starfaði lengi sem forstjóri olíufyrirtækisins ExxonMobil.

Tillerson mætti fyrir nefnd þingsins til að svara spurningum hennar og þurfti hann meðal annars að svara fyrir það hvers vegna Trump vill bæta samskipti við stjórnvöld í Rússlandi, en Tillerson hvatti til þess að opin umræða réði för í samskiptum við ráðamenn í Moskvu.

„Bandamenn okkar í NATO hafa gilda ástæðu til að óttast endurreist Rússland. En það var vöntun á forystu Bandaríkjanna sem opnaði á þetta,“ sagði Tillersson meðal annars við nefndina.

Öldungadeildin mun nú kjósa um tillögu Trumps, en Repúblikanar eru með meirihluta í öldungadeildinni. Fastlega er gert ráð fyrir því að tillagan verði samþykkt og að Tillerson muni taka við embætti utanríkisráðherra Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×