Erlent

Trump mun banna komu fólks frá sjö múslimaríkjum

atli ísleifsson skrifar
Donald Trump.
Donald Trump. Vísir/AFP
Búist er við að Donald Trump Bandaríkjaforseti undirriti síðar í vikunni tilskipanir þess efnis að tímabundið stöðva komu sýrlenskra flóttamanna og innflytjendum frá ákveðnum múslimaríkjum til Bandaríkjanna.

Trump greindi frá því á Twitter-síðu sinni í nótt að framundan væri stór dagur þegar kæmi að þjóðaröryggi Bandaríkjanna þar sem hann muni kynna fyrirætlanir sínar um að reisa múr á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna.

Í frétt Reuters er haft eftir ónafngreindum heimildarmönnum sem standa nærri Trump að forsetinn undirbúi nú að hindra aðgang innflytjenda, flóttamanna og ákveðinna manna með vegabréfsáritanir frá Írak, Íran, Líbíu, Sómalíu, Súdan, Sýrlandi og Jemen.

Segir að slíkt bann verði í gildi þar til stjórnvöld hafi komið á ferli þar sem bakgrunnur allra þeirra sem koma til landsins er betur kannaður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×