Erlent

Trump fyrirskipar byggingu múrsins við Mexíkó

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, skrifar undir margar fyrirskipanir þessa dagana.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, skrifar undir margar fyrirskipanir þessa dagana. Vísir/EPA
Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hefur skrifað undir tilskipun þess efnis að yfirvöld þar í landi skulu hefja byggingu á „óyfirstíganlegum múr“ við landamæri Bandaríkjanna að Mexíkó. BBC greinir frá.

Um er að ræða eitt af alræmdustu kosningaloforðum forsetans, en þar lofaði hann að byggja múr við landamærin að Mexíkó og að yfirvöld þar í landi myndu fá að borga múrinn.

Við undirritun tilskipunarinnar í dag dró forsetinn hvergi í land með þá staðhæfingu og sagði hann að yfirvöld í Mexíkó myndu „algjörlega, hundrað prósent“ endurgreiða Bandaríkjunum að fullu fyrir byggingu múrsins.

Trump bauð foreldrum þeirra, sem að sögn Trump voru „myrt á hryllilegan hátt af einstaklingum sem bjuggu hér ólöglega,“ að verða vitni að undirrituninni. Trump las upp nöfn þeirra og leyfði foreldrunum að standa yfir sér á meðan hann skrifaði undir tilskipunina.

„Í áraraðir hafa fjölmiðlar virt að vettugi sögur Bandaríkjamanna og löglegra borgara sem hafa orðið fórnarlömb opinna landamæra,“ sagði Trump við undirritunina. „Við heyrum í ykkur, við sjáum ykkur og þið verðið aldrei hundsuð aftur.“

Yfirvöld í Mexíkó hafa áður lýst sig andsnúin byggingaráætlunum Trump og sagt að það sé ekki ætlunin að greiða fyrir slíkan múr.

Á sama tíma skrifaði Trump undir fyrirskipun sem skerðir fjármagn til þeirra borga sem ekki framfylgja innflytjendastefnu alríkislögreglunnar að fullu, en um er til að mynda að ræða Los Angeles borg. Þar hefur lögreglan ekki mátt taka fólk í yfirheyrslu eingöngu í þeim tilgangi að spyrja það um ríkisborgararétt sinn. Með því er borgin ekki að hlýta að fullu innflytjendastefnu alríkisstjórnarinnar.


Tengdar fréttir

Trump heitir rannsókn á meintu kosningasvindli

Fyrir kosningarnar og allt frá því að í ljós kom að hann vann án þess að fá meirihluta atkvæða hefur Trump haldið því fram að milljónir hafi kosið ólöglega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×