Erlent

Trump styður notkun pyndinga

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er opinn fyrir pyndingum.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er opinn fyrir pyndingum. Vísir/AFP
Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, segir að hann vilji „láta hart mæta hörðu,“ þegar kemur að aðferðum í baráttunni við hryðjuverk. Hann segist vera opinn fyrir því að leyfa hernum og leyniþjónustunni að nýtast við pyndingar, sem hann segist „algjörlega“ trúa að geri gagn. CNN greinir frá.

Að sögn Trump hefur fólk „innan æðstu metorða innan leyniþjónustunnar,“ sagt honum að pyndingar virki, en sérfræðingar á vegum bandaríska hersins hafa áður sagt að slíkar aðferðir dugi skammt í baráttunni við hryðjuverk.

Hann segir að miðað við grimmd hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við Ríki Íslams, sé það ekkert mál að leyfa svokallaða „vatnsbretta-aðferð.“

„Þegar ISIS er að gera hluti sem enginn hefur heyrt um, síðan á miðöldum, myndi mér finnast erfitt að leyfa vatnsbretta-aðferðina? Að mínu mati eigum við að láta hart mæta hörðu.“ Þar á hann meðal annars við þau tilvik þar sem samtökin hafa afhöfðað saklausa borgara.

Trump segir að sér finnist svo vera að Bandaríkin geti ekki barist við Ríki Íslams á jöfnum grundvelli.

„Þetta er ekki jafn leikur, ég vil gera allt sem er mögulegt innan lagalegs ramma. Held ég að það virki? Ég held algjörlega að það virki,“ segir Trump, sem á þar við pyndingar.

Demókratar, sem og Repúblikanar hafa gagnrýnt hugmyndir Trump um að leyfa pyndingar á ný, sem ítrekað voru notaðar af leyniþjónustunni eftir hryðjuverkaárásirnar þann 11. september 2001.

Trump hefur þó tekið fram að hann ætli sér að hlusta á skoðanir meðlima ríkisstjórnar sinnar, en Mike Pompeo, sem brátt verður varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur sagt að hann sé mótfallinn því að taka upp pyndingar á ný.

„Ég get ekki trúað því að ég yrði beðinn um það, af hálfu verðandi forseta,“ sagði Pompeo meðal annars við fulltrúa varnarmálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings, þegar hann var spurður út í afstöðu sína til málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×