Íslenski boltinn

Valsmenn í undanúrslit Reykjavíkurmótsins | Fjölnismenn með fullt hús stiga

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Strákarnir hans Óla Jóh voru beittir í kvöld og unnu öruggan sigur.
Strákarnir hans Óla Jóh voru beittir í kvöld og unnu öruggan sigur. vísir/anton
Valsmenn unnu öruggan 4-0 sigur á Leikni Reykjavík í lokaleik B-riðilsins í Reykjavíkurmótinu í knattspyrnu í Egilshöllinni í dag en með sigrinum komust Valsmenn í undanúrslit Reykjavíkurmótsins.

Það var ljóst að þetta var úrslitaleikur upp á hvort liðið myndi fylgja Fjölnismönnum í úrslitin en bæði höfðu þau unnið leik sinn gegn Þrótt en tapað gegn Fjölni.

Valsmenn komust yfir rétt fyrir lok fyrri hálfleiks með marki frá Kristni Inga Halldórssyni en hann bætti við öðru marki tíu mínútum fyrir leikslok.

Aron Gauti Magnússon og Cristian Andres Catano bættu við sitt hvoru markinu á lokamínútunum er sigurinn var kominn í höfn en með sigrinum ná Valsmenn öðru sæti B-riðilsins.

Í fyrri leik dagsins gulltryggðu Fjölnismenn efsta sæti riðilsins með 4-0 sigri á Þrótturum en Fjölnismenn unnu alla leiki sína í riðlinum.

Ægir Jarl Jónasson kom Fjölni yfir á 19. mínútu en Þórir Guðjónsson bætti við forskotið af vítapunktinum á 49. mínútu. Birnir Snær Ingason gerði út um leikinn með þriðja marki Fjölnis á 62. mínútu en Ægir Jarl bætti við öðru marki sínu undir lok venjulegs leiktíma.

Fjölnismenn tóku því efsta sæti B-riðilsins og Valsmenn annað sætið en það kemur í ljós á föstudaginn næsta hvaða liðum þau mæta í undanúrslitum Reykjavíkurmótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×