Handbolti

Tveir kveðja en einn stimplar sig inn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
vísir/getty
Fjórir íslenskir þjálfarar stýra liðum á HM í handbolta sem hófst í Frakklandi í gær. Tveir þeirra þekkja vel til á stórmótum sem þjálfarar og hafa unnið slík mót. Það eru auðvitað Evrópumeistarinn Dagur Sigurðsson, þjálfari Evrópumeistara Þýskalands, og Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Ólympíumeistara Dana.

Tveir Íslendingar þreyta frumraun sína í Frakklandi. Annar er Geir Sveinsson sem þjálfar íslenska liðið en hinn er Kristján Andrésson, þjálfari Svíþjóðar. Allir nema Geir voru saman á stórmóti árið 2004 þegar Ísland tók þátt á Ólympíuleikunum í Aþenu. Dagur og Kristján voru leikmenn, Guðmundur þjálfari en skórnir voru komnir upp í hillu hjá fyrrverandi landsliðsfyrirliðanum Geir Sveinssyni.

Þrátt fyrir frábæran árangur á síðasta ári verður HM í Frakklandi kveðjumót bæði Dags og Guðmundar. Dagur hefur ákveðið að taka við japanska landsliðinu og búa þar til samkeppnishæft lið fyrir Ólympíuleikana í Tókýó árið 2020 en Guðmundur stóð í ströngu í kringum Ólympíugullið og ákvað að segja starfi sínu lausu. Hann verður ekki í miklum vandræðum með að finna sér aðra vinnu.

Þriðji Íslendingurinn sem þjálfar annað landslið en Ísland á HM, Kristján Andrésson, er á sínu fyrsta stórmóti með þessa miklu handboltaþjóð. Kristján er fyrsti Íslendingurinn sem þjálfar Svía en hann var þjálfari Guif frá Eskilstuna í níu ár frá 2007-2016. Hann kom liðinu þrisvar sinnum í úrslitaleik sænsku úrvalsdeildarinnar en ber nú ábyrgð á því að lyfta fjórföldum heimsmeisturum Svía aftur upp í hæstu hæðir.

Ísland á næstflesta þjálfara á mótinu á eftir Spánverjum. Sex Spánverjar þjálfa fimm lið en Katar eru með tvo slíka að stýra silfurliði síðasta heimsmeistaramóts.

Dagur kveður Þjóðverja eftir HM.vísir/getty
Dagur Sigurðsson, Þýskalandi

43 ára

Tók við þýska landsliðinu í ágúst 2014

Fjórða stórmótið með Þjóðverja

7. sæti á HM 2016

1. sæti á EM 2016

3. sæti á ÓL 2016

Dagur Sigurðsson varð að þjóðhetju í Þýskalandi á síðasta ári þegar hann gerði ungt og meiðslum hrjáð lið Þjóðverja að Evrópumeisturum. Hann bætti svo um betur og skilaði bronsi í hús á Ólympíuleikunum.

Dagur hefur oft tekið áhugaverðar ákvarðanir á sínum ferli og eina slíka tók hann undir lok síðasta árs þegar kom í ljós að hann myndi hætta með Þýskaland eftir HM. Hans næsta verkefni er að þjálfa Japan. Hann er á sínu fimmta stórmóti sem þjálfari en áður stýrði hann Austurríki á EM þar í landi árið 2010. Á stórmótunum hafa Þjóðverjar unnið 19 af 25 leikjum (5 tapleikir) síðan hann tók við. Þetta gerir 78 prósent sigurhlutfall.

Hvað segir Gaupi um Dag og Þýskaland? „Þjóðverjar eru eitt þriggja liða ásamt Dönum og Frökkum sem koma til greina sem sigurvegarar. Þessi þrjú lið spila besta varnarleikinn og eru með bestu markverðina. Það veikir þýska liðið að Steffen Weinhold er ekki með. Það er áfall og veikir möguleika þeirra. Þýska liðið kom á óvart á EM í fyrra en er núna þekkt stærð og mótherjar þeirra vita frekar að hverju þeir ganga.“

Kristján er á leið á sitt fyrsta stórmót með sænska liðið.mynd/guif
Kristján Andrésson, Svíþjóð

35 ára

Tók við sænska landsliðinu í september 2016

Fyrsta stórmótið sem þjálfari

Svíar voru í 11. sæti á síðasta stórmóti sínu (ÓL 2016)

Kristján var leikmaður líkt og hinir þrír íslensku þjálfararnir en náði aldrei jafn langt á þeim ferli. Hann þurfti að leggja skóna á hilluna fyrir þrítugt vegna þrálátra hnémeiðsla en hefur í staðinn gert það gott sem þjálfari í Svíþjóð. Hann er fæddur í Svíþjóð en er með íslenskan ríkisborgararétt. Bróðir hans, Haukur Andrésson, á einnig leiki fyrir íslenska landsliðið en hann spilaði lengi undir stjórn bróður síns hjá Guif. Hann hefur stýrt Svíum fimm sinnum, þar af í tveimur mótsleikjum, og unnið þá alla.

Hvað segir Gaupi um Kristján og Svía? „Svíar eru í endurbyggingarfasa og hafa misst mikið af góðum leikmönnum á síðustu mánuðum. Svíar hafa samt engan skilning á uppbyggingu og gera kröfur um að komast að minnsta kosti í átta liða úrslit. Undanúrslit væru bónus. Ég er spenntur fyrir því að sjá Svía undir stjórn Kristjáns því ég held að hann sé betri þjálfari en sumir halda. Pressan á honum verður ekkert minni en hjá Guðmundi þegar hann tók við Dönum. Þó hann sé fæddur í Svíþjóð er hann Íslendingur og því er það mikið afrek og meðmæli að hann hafi yfirhöfuð fengið starfið sem landsliðsþjálfari Svíþjóðar.“

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska landsliðsins.vísir/getty
Guðmundur Guðmundsson, Danmörku

56 ára

Tók við danska landsliðinu

í júlí 2014

Fjórða stórmótið með Dani

5. sæti á HM 2015

6. sæti á EM 2016

1. sæti á ÓL 2016

Reynsluboltinn Guðmundur Guðmundsson er á sínu þrettánda stórmóti sem þjálfari en hann stýrði Íslandi níu sinnum og skilaði tvisvar sinnum verðlaunum. Hann byrjaði ekki nógu vel með Dani þegar kom að því að safna verðlaunum en hann datt úr leik í átta liða úrslitum á HM í Katar og á EM í Póllandi. Hann bætti upp fyrir allt saman með því að vinna Ólympíuleikana í erfiðu og ósanngjörnu starfsumhverfi á síðasta ári. Danir hafa aðeins tapað fimm keppnisleikjum af 37 undir stjórn Guðmundar og á stórmótum hafa Danir unnið 16 af 24 leikjum (5 tapleikir) síðan hann tók við. Þetta gerir 73 prósent sigurhlutfall.

Hvað segir Gaupi um Guðmund og Dani? „Danir eru með mjög heilsteypt lið sem getur unnið mótið. Það veikir liðið hrikalega mikið að Mads Christiansen gaf ekki kost á sér. Guðmundur gerði vel á síðasta ári með því að velja Morten Olsen í liðið fram yfir Rasmus Lauge. Olsen var lykilmaður í því að Danir unnu ÓL. Hann er miðjumaður úr smiðju Guðmundar. Þarna tók Gummi einu sinni sem oftar stóra en rétta ákvörðun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×