Íslenski boltinn

Einar Karl en ekki sonur Eiðs Smára tryggði Val fyrsta sigurinn á árinu 2017

Óskar Ófegur Jónsson skrifar
Valsmenn byrjuðu tímabilið á sigri.
Valsmenn byrjuðu tímabilið á sigri. Vísir/Stefán
Það var Einar Karl Ingvarsson en ekki Sveinn Aron Guðjohnsen sem tryggði Valsmönnum þrjú stig í gærkvöldi en þetta var fyrsti leikur Hlíðarendaliðsins í Reykjavíkurmótinu í ár.

Valsliðið vann þá 3-2 sigur á Þrótti í fyrsta leik liðanna í B-riðli Reykjavíkurmótsins en Fjölnir vann 1-0 sigur á Leikni í hinum leik B-riðilsins í gær.

Einar Karl Ingvarsson skoraði sigurmarkið á 67. mínútu leiksins eftir að staðan hafði verið 2-2 í hálfleik. Vísir fór eftir leikskýrslu leiksins í morgun þegar við sögðum frá því að Sveinn Aron Guðjohnsen hafi skorað sigurmarkið.

Einar Karl eða einhver tengdur Valsliðinu hefur væntanlega sent inn athugasemd því skýrslan á KSÍ hefur nú verið leiðrétt. Einar Karl Ingvarsson er nú skráður fyrir markinu. Öll hin fjögur mörk leiksins halda hinsvegar sinni skráningu eins og þegar skýrslan kom inn á ksi.is.

Þróttarar komust tvisvar yfir í leiknum, fyrst kom Brynjar Jónasson Þrótturum í 1-0 á 4. mínútu og svo varð Haukur Páll Sigurðsson fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 41. mínútu.

Danski framherjinn Nikolaj Andreas Hansen jafnaði í bæði skiptin, fyrst í 1-1 á 34. mínútu og svo í 2-2 á 44. mínútu. Einar Karl gerði síðan út um leikinn 23 mínútum fyrir leikslok.

Þórir Guðjónsson skoraði eina markið í 1-0 sigri Fjölnis á Leikni en markið hans kom strax á þrettándu mínútu leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×