Innlent

Lögreglan birtir myndband af Birnu í miðbæ Reykjavíkur

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Skjáskot úr myndbandi lögreglunnar sem sýna Birnu á ferð um miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt laugardags.
Skjáskot úr myndbandi lögreglunnar sem sýna Birnu á ferð um miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt laugardags.
Lögreglan hefur nú birt myndband af Birnu Brjánsdóttur þar sem hún sést á ferð um í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt laugardags. Það má sjá í spilaranum hér að ofan en myndbandið er unnið upp úr nokkrum eftirlitsmyndavélum í miðborginni.

Myndbandið er um ein og hálf mínúta að lengd. Birna sést á gangi í Austurstræti við Héraðsdóm Ryekjavíkur, því næst í Bankastræti og svo á Laugaveginum.

Lögreglan biður alla þá sem kunna að hafa orðið varir við Birnu á ferð um miðbæ Reykajvíkur vinsamlegast um að hafa samband við lögrelgu í síma 444-1000, á netfangið abending@lrh.is eða með einkaskilaboðum í gegnum Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Sjá einnig: Blaðamannafundur vegna hvarfs Birnu: Virtist hress og skemmta sér vel á Húrra

Birnu hefur verið saknað síðan á aðfaranótt laugardags. Hún hafði verið úti að skemmta sér með vinum á skemmtistaðnum Húrra. Þar er síðast vitað af henni í samskiptum við annað fólk en á eftirlitsmyndavélunum sést Birna ganga austur Austurstræti, upp Bankastræti og á Laugvegi til móts við hús númer 31 þar sem hún hverfur sjónum um klukkan 05:25.

Á blaðamannafundi lögreglunnar vegna hvarfs Birnu í dag kom fram að litlar sem engar vísbendingar séu til að styðjast við leitina að henni. Lögreglan ítrekar það að hún vilji ná tali af ökumanni rauðs fólksbíls, sem er líklega af gerðinni Kia Rio, en hann sést aka á Laugveginum til móts við hús númer 31 á svipuðum tíma og Birna hverfur sjónum í eftirlitsmyndavélum.

Þá sagðist lögreglan einnig vilja ná tali af fólki kann að sjást í myndbandinu og gæti haft upplýsingar um ferðir Birnu.

Birna er 170 sentimetrar á hæð, með sítt ljósrautt hár, klippt með topp fram á ennið.  Hún var klædd í svartar gallabuxur, gráa peysu og svartan flísjakka með hettu. Þá var hún í svörtum uppreimuðum Dr. Martens-skóm.

Uppfært 16. ágúst 2017

Myndbandið hefur verið fjarlægt úr fréttinni að beiðni lögreglu fyrir hönd aðstandenda Birnu Brjánsdóttur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×