Körfubolti

KR-ingar fengu 1. deildarlið Vals | Vesturlandsslagur hjá konunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benedikt Blöndal og félagar í Val fá Íslands- og bikarmeistara KR í undanúrslitunum.
Benedikt Blöndal og félagar í Val fá Íslands- og bikarmeistara KR í undanúrslitunum. Vísir/Anton
Í dag var dregið í undanúrslit Maltbikarsins í körfubolta en þau fara í fyrsta sinn fram í Laugardalshöllinni í ár. Undanúrslitin fara fram í Höllinni í sömu viku og bikarúrslitaleikurinn eins og hefur verið hjá handboltanum undanfarin ár.

Stórleikurinn er örugglega leikur Íslandsmeistara Snæfells og spútnikliðs Skallagríms í Maltbikar kvenna en bæði liðinu eru í harðri baráttu á toppi Domino´s deildar kvenna. Liðin mættust einmitt í Stykkishólmi um helgina og þá höfðu Skallagrímskonur betur.

Topplið Keflavíkur dróst aftur á móti gegn Haukum sem er í næstneðsta sæti deildarinnar. Keflavíkurliðið hefur slegið í gegn í vetur en Haukastelpurnar eru komnar svona langt þrátt fyrir að hafa misst nánast heilt lið frá því í fyrra.

Hjá körlunum munu mætast Grindavík og Þór Þorlákshöfn en Þórsarar fóru alla leið í bikarúrslitaleikinn í fyrra. Grindvíkingar voru síðast í bikarúrslitaleiknum 2014 en þeir slógu þá einmitt Þórsara út í undanúrslitunum.

Hinn leikurinn hjá körlunum er á milli 1. deildarliðs Vals og Íslands- og bikarmeistara KR. Valsmenn hafa þegar slegið út þrjú úrvalsdeildarlið í vetur en það verður þrautinni þyngri hjá þeim að stöðva sigurgöngu KR-liðsins í bikarkeppninni.

Tveir sigursælustu leikmennirnir í sögu bikarkeppni KKÍ, þau Anna María Sveinsdóttir og Teitur Örlygsson,  drógu en alls unnu þau Anna María Sveinsdóttir og Teitur Örlygsson sautján bikarmeistaratitla saman sem leikmenn.

Teitur hefur síðan bætt við tveimur bikarmeistaratitlum sem þjálfari. Þau hafa því í sameiningu komið að nítján bikarmeistaratitlum. Það hefur heldur enginn leikmaður skorað fleiri stig í bikarúrslitaleikjum en þau Anna María Sveinsdóttir (201 stig) og Teitur Örlygsson (199 stig).



Hér fyrir neðan má sjá leikina í undanúrslitunum og einnig hvenær þeir munu fara fram.



Undanúrslit Maltbikars kvenna:

17.00 Keflavík - Haukar

20.00 Skallagrímur - Snæfell

Leikirnir fara fram miðvikudaginn 8. febrúar.



Undanúrslit Maltbikars karla:

17.00 Valur - KR

20.00 Þór Þorlákshöfn - Grindavík

Leikirnir fara fram fimmtudaginn 9. febrúar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×