Innlent

Grímur Grímsson: „Ég hvet til þess að það sé ekki einhver múgæsingur“

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókn á hvarfi Birnu Brjánsdóttur, segir lögregluna hafa fengið mikið af ábendingum frá almenningi.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókn á hvarfi Birnu Brjánsdóttur, segir lögregluna hafa fengið mikið af ábendingum frá almenningi. Vísir/Anton Brink
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókn á hvarfi Birnu Brjánsdóttur, segir lögregluna hafa fengið mikið af ábendingum frá almenningi. Hann hvetur til að ekki sé múgæsingur vegna málsins og segir að fólk reyni að auka vægi upplýsinga sem það býr yfir.

„Það er vandratað að tala um þetta þannig að maður sé hvorki að draga of mikið úr fólki né hvetja það um of. En málið hefst þannig að fólk er mjög meðvitað um málið. Auk þess sem þetta er mál sem hreyfir við fólki, þetta snertir viðkvæmar taugar hjá fólki. Það er mjög skiljanlegt að það spili tilfinningalega inn í, að fólk hafi tilfinningar til málsins ef svo má segja og þessarar leitar að þessari ungu konu,“ segir Grímur í samtali við Vísi.

„Þannig að ég held að í stórum dráttum þá séu margir að gera mjög góða hluti á meðan sumir kannski eru að missa sig. Við sjáum það í umræðu um að það hafi orðið líkfundur við eitthvað vatn þá er það alveg klárt að þar kviknar einhver alger della. Við getum ekki dæmt allt sem fólk er að gera eins og það sé ómögulegt út af því. Ég bendi náttúrlega á það að skórnir fundust vegna þess að almennir borgarar voru að leita.“

Margar ábendingar borist

Fámennt lið lögreglu var í gærkvöldi sent að Hvaleyrarvatni í Hafnarfirði vegna orðróms sem fór víða á samfélagsmiðlum um að þar hafi fundist lík. Orðrómurinn reyndist ekki eiga við rök að styðjast.

Hafa margir gefið sig fram til lögreglu með upplýsingar vegna málsins?

„Fólk er mjög mikið að hafa samband við okkur og láta okkur fá ábendingar. Við tökum við þeim og reynum að vinsa úr þeim. Þetta er á öllum skalanum. Sumt er eitthvað sem við fylgjum eftir og sumt teljum við vera þess eðlis að við fylgjum því ekki eftir.“

Þið teljið að þetta sé mestmegnis af hinu góða?

„Já, ég myndi alveg leyfa mér að segja það. Ég hvet til þess að það sé ekki einhver múgæsingur og einnig að menn séu ekki að fara í einhverjar upphrópanir út af ákaflega litlu. Við þurfum aðeins að skoða málið þegar verið er í svona aðgerð, og líka almenningur,“ segir Grímur.

„Maður getur alltaf velt því fyrir sér hvað gerist þegar einhver segir að lík hafi fundist. Það getur náttúrlega verið einhver misskilningur milli fólks. En svo voru menn farnir að dressa þetta upp með auknu álagi og segja að þetta kæmi frá björgunarsveitum og þess háttar. Þá sjáum við að fólk er að reyna að auka vægi sinna upplýsinga.“

Lögreglan óskaði í gærmorgun eftir og fékk lista yfir skipverja á grænlenska skipinu Polar Nanoq vegna rannsóknar á hvarfi Birnu. Togaranum hefur verið snúið við til Íslands og er búist við að Polar Nanoq komi til Íslands í kvöld. 

Polar Seafood, útgerð togarans, sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem segir að engin kæra hafi verið lögð fram gegn skipverjum, og sagðist heita því að veita lögreglu alla mögulega aðstoð við rannsókn málsins.

„Íslenska lögreglan hefur nú til rannsóknar hvort einn eða fleiri í áhöfn togarans Polar Nanoq geti veitt upplýsingar um unga konu sem er leitað," segir í yfirlýsingunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×