Enski boltinn

United búið að taka tilboði Lyon í Memphis

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hollenski landsliðsmaðurinn Memphis Depay er á leið frá Manchester United til Lyon í Frakklandi en enska félagið er búið að taka tilboði þess franska í leikmanninn. Þetta kemur fram á vef BBC.

Lyon borgar Manchester United 16 milljónir punda fyrir Memphis en kaupverðið getur hækkað í tæpar 22 milljónir punda með árangurstengdum greiðslum. United hefur einnig forkaupsrétt á leikmanninum og getur fengið hann aftur komist hann á skrið.

Þessi 22 ára gamli framherji skoraði sjö mörk í 53 leikjum fyrir Manchester United eftir að vera keyptur á 31 milljón punda frá PSV Eindhoven sumarið 2015. Hann hefur ekki náð að heilla á Old Trafford.

Memphis var markahæsti leikmaður hollensku úrvalsdeildarinnar tímabilið áður en hann kom til Englands en hann komst aldrei almennilega í gang hjá Manchester United.

Lyon er í fjórða sæti frönsku 1. deildarinnar, ellefu stigum á eftir toppliði Monaco og átta stigum á eftir PSG sem er í þriðja sætinu.

Memphis er búinn að spila átta leiki á tímabilinu fyrir United en hefur aðeins spilað átta mínútur síðan í október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×