Handbolti

Örlög strákanna okkar í þeirra höndum eftir sigur Spánverja

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Makedóníumenn gáfu Spánverjum alvöru leik og eyddu vonandi mikilli orku.
Makedóníumenn gáfu Spánverjum alvöru leik og eyddu vonandi mikilli orku. vísir/epa
Ísland getur endað í þriðja sæti B-riðils HM 2017 í handbolta. Til þess að það gerist þurfa strákarnir okkar að vinna Makedóníu í úrslitaleik um þriðja sætið annað kvöld.

Þetta varð ljóst í kvöld þegar Spánn gerði okkar mönnum greiða með því að vinna Makedóníu, 29-25, í fjórðu umferð riðlakeppninnar. Sigur Spánverja var torsóttur en staðan var jöfn í hálfleik, 14-14.

Makedónar voru enn þá inn í leiknum þegar tíu mínútur voru eftir en þá voru Spánverjar aðeins með eins marks forskot, 23-22. Spænska liðið var sterkara á endasprettinum og vann á endanum nokkuð öruggan sigur, 29-25.

Hornamaðurinn Valero Rivera fór á kostum í kvöld og skoraði ellefu mörk úr fjórtán skotum en hann var lang markahæstur í liði Spánar. Eins og alltaf var Kiril Lazarov markahæstur Makedóníumanna en hann skoraði sex mörk úr tíu skotum.

Með sigrinum komst Spánn aftur í efsta sæti B-riðils með átta stig eða fullt hús. Það er búið að vinna alla fjóra leiki sína og þarf aðeins jafntefli gegn Slóveníu í lokaumferðinni á morgun til að tryggja sér sigur í riðlinum.

Makedónía er í þriðja sæti með fjögur stig, einu stigi meira en Ísland. Strákarnir okkar mæta Makedóníumönnum á morgun klukkan 17.45 í úrslitaleik um þriðja sætið þar sem Makedóníu nægir jafntefli. Sigur tryggir Íslandi þriðja sætið og leik á móti Noregi í 16 liða úrslitum.

Ísland kemur til leiks á morgun eftir eins dags hvíld en Makedónía eyddi miklum kröftum í þennan erfiða leik gegn Spáni í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×