Innlent

„Ekki að ástæðulausu sem farið er fram með slíka kröfu“

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Grímur Grímsson yfirmaður rannsóknar á hvarfi Birnu Brjánsdóttur.
Grímur Grímsson yfirmaður rannsóknar á hvarfi Birnu Brjánsdóttur. vísir/anton brink
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn sem fer með rannsókn á hvarfi Birnu Brjánsdóttur segir lögregluna telja nauðsynlegt að krefjast gæsluvarðhalds yfir þeim mönnum sem handteknir voru um hádegisbil í gær. Hann segir að mennirnir hafi verið skildir að um leið og lögregla kom um borð í Polar Nanoq.

„Rannsóknin er á því stigi að við teljum nauðsynlegt að krefjast gæsluvarðhalds yfir þeim sem handteknir fyrir um sólarhring. Svo við höfum lengri tíma til að halda áfram að vinna með þær upplýsingar sem við erum með,“ segir Grímur í samtali við Vísi.

Grímur segist ekki getað gefið neitt upp um mennina, annað en að þeir séu báðir grænlenskir.

„Núna er nauðsynlegt fyrir okkur að fá að vinna í þessu. Þetta eru þvingunarráðstafanir og eitt af þeim möguleikum sem lögreglan hefur samkvæmt lögum um meðferð sakamála við ákveðnar aðstæður. Þvingunarráðstafanir eru íþyngjandi fyrir þá sem þeim er beitt gegn. Það má segja að það er ekki að ástæðulausu sem farið er fram með slíka kröfu. Ef menn vilja sjá hvort litið er alvarlega á þetta þá er þegar farið er fram með slíka kröfu þá er það alvarlegt.“

Sérsveitarmenn lögreglu fóru um borð í Polar Nanoq að hádegi í gær og handtóku mennina tvo.

Voru mennirnir skildir að þegar þið komuð um borð í skipið í gær?

„Um leið og við komum um borð var það gert. Um leið og sérsveitarmenn koma um borð í skipið þá eru þeir skildir að.“

Þriðji maðurinn var svo handtekinn í gærkvöldi og segir Grímur að ekki sé búið að ákveða hvort einnig verði farið fram á gæsluvarðhald yfir honum.


Tengdar fréttir

Farið fram á gæsluvarðhald yfir skipverjunum

Tveir skipverjar á Polar Nanoq, sem grunaðir eru um aðild að hvarfi Birnu Brjánsdóttur, sem saknað hefur verið frá því á laugardag, verða færðir fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjaness fyrir hádegi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×