Íslenski boltinn

Martin Lund úr Fjölni í Breiðablik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Martin Lund Pedersen fór í lið sem endaði neðar en Fjölnir.
Martin Lund Pedersen fór í lið sem endaði neðar en Fjölnir. vísir/ernir
Danski framherjinn Martin Lund Pedersen sem fór á kostum með Fjölni í Pepsi-deild karla í fótbolta síðasta sumar er genginn í raðir Breiðabliks. Þetta kemur fram á heimasíðu Blika.

Martin Lund skrifar undir eins árs samning við Blika en þessi fljóti og marksækni leikmaður skoraði níu mörk í 22 leikjum fyrir Fjölni á síðustu leiktíð og lagði upp önnur fimm. Með Danann í stuði náði Fjölnir að bæta sinn besta árangur í efstu deild en liðið hafnaði í fjórða sæti.

„Það var ekki auðvelt að kveðja Fjölnisliðið enda átti ég góðan tíma í Grafarvoginum síðasta sumar. Mér stóðu margir möguleikar til boða eftir tímabilið en að lokum ákvað ég að ganga til liðs við Breiðablik,“ segir hinn 25 ára gamli Martin Lund.

„Mér líst vel á alla umgjörð hjá félaginu. Ég tel að með þeim þjálfurum og leikmönnum sem þar eru til staðar félagið hafi félagið frábæran efnivið til að ná mjög langt á næsta tímabili. Ég hlakka til að taka slaginn með Kópavogsliðinu í Pepsí-deildinni næsta sumar.“

Martin Lund er kærkomin viðbót í lið Blika en liðið átti í miklu basli með að skora á síðustu leiktíð. Það skoraði aðeins 27 mörk í 22 leikjum eða fæst mörk allra liða sem voru í baráttu um Evrópusæti. Blikar höfnuðu í sjötta sæti Pepsi-deildarinnar á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×