Körfubolti

Stjarnan skiptir um Kana

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lið Stjörnunnar í Domino´s-deild karla í körfubolta mætir með nýjan bandarískan leikmann til leiks á nýju ári en það er búið að skipta Devon Austin út fyrir Anthony Odunsi.

Devon skilaði 14,3 stigum og 7,7 fráköstum að meðaltali í leik en heillaði fáa sérfræðinga um deildina. Stjarnan er í öðru sæti eftir fyrri umferðina í deildarkeppninni með 18 stig.

„Eftir meiðsli Marvins varð helsta staða Devon hjá okkur staða kraftframherja.  Nú þegar styttist í að bæði Marvin og Sæmundur komi úr meiðslum og Tómas Þórður er kominn aftur frá Bandaríkjunum er ljóst að hans hlutverk yrði aftur mestmegnis sem bakvörður hjá okkur,“ segir Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, um Austin og komu þess nýja.

„Þegar það varð ljóst varð niðurstaðan að leita eftir leikmanni sem mögulega hefði til að bera annars konar eiginleika í þeirri stöðu en Devon hefur til að bera til að gera hóp okkar enn þéttari fyrir seinni hlutann.“  

„Að mínu mati er Anthony slíkur leikmaður. Hann er bæði sterk skytta af færi og fær í að komast fram hjá varnarmönnum með boltann í höndunum sem voru eiginleikar sem ég var að leita eftir. Við kveðjum Devon með söknuði, enda topp atvinnumaður sem hefur heilt yfir skilað mjög góðu verki fyrir okkur,“ segir Hrafn.

Odunsi er sagður líkamlega sterkur bakvörður sem getur leyst allar þrjár bakvarðastöður. Hann spilaði með Houston Baptist-háskólanum í Bandaríkjunum þar sem hann skoraði 17,5 stig að meðaltali í leik á síðasta ári auk þess sem hann tók 4,6 fráköst og gaf 3,7 stoðsendingar.

„Það vakti mikla athygli síðasta tímabili að hann skipaði þriðja sæti yfir alla leikmenn efstu deildar háskólaboltans yfir hversu mörg vítaskot hann tók að meðaltali en hann tók að meðaltali 9.2 slík í hverjum leik,“ segir í fréttatilkynningu Stjörnumanna.

Stjarnan hefur leik á nýju ári gegn nýliðum Þórs á heimavelli í Ásgarði á fimmtudaginn klukkan 19.15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×