Fótbolti

Real Madrid þurfti ekki á Ronaldo að halda | James sá um þetta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Rodriguez fagnar öðru marka sinna í kvöld.
James Rodriguez fagnar öðru marka sinna í kvöld. Vísir/Getty
Real Madrid er í góðum málum í spænska Konungsbikarnum eftir 3-0 sigur á Sevilla í kvöld í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitunum.

Kólumbíumaðurinn James Rodríguez skoraði tvö mörk fyrir Real Madrid í kvöld en liðið lék án Cristiano Ronaldo og fimm annarra lykilmanna.

Framlínuþrennan Ronaldo, Karim Benzema og Gareth Bale var sem dæmi öll fjarverandi og fyrirliðinn Sergio Ramos var heldur ekki með. Það kom ekki að sök því Zinedine Zidane gat teflt fram öflugu liði.

James Rodríguez hefur fengið fá tækifæri á tímabilinu en honum tókst að tvöfalda markaskor sitt í vetur með þessum tveimur mörkum sínum.

Öll mörk Real Madrid í leiknum komu í fyrri hálfleiknum. James skoraði fyrsta markið á 11. mínútu og það þriðja úr vítaspyrnu á 44. mínútu.

Franski miðvörðurinn skoraði annað markið með skalla á 29. mínútu eftir hornspyrnu frá Króatanum Luca Modric. Modric fiskaði líka vítaspyrnuna fimmtán mínútum síðar.

Seinni leikur liðanna fer fram á heimavelli Sevilla í næstu viku.

Real Madrid hefur nú leikið 38 leiki í röð í öllum keppnum án þess að tapa. 29 af þessum 38 leikjum hafa unnist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×