Körfubolti

Ósætti hjá körfuboltaliðum vegna manneklu í Útlendingastofnun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Myron Dempsey í búningi Tindastóls.
Myron Dempsey í búningi Tindastóls. vísir/valli
Þrír erlendir leikmenn sem eru allir komnir hingað til lands og bíða þess eins að spila með liðum sínum í Domino's-deild karla hafa ekki enn fengið dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi.

Þetta eru Myron Dempsey, leikmaður Njarðvíkur, Anthony Odunsi í Stjörnunni og Christian David Covile hjá Snæfelli.

„Það vildi svo óheppilega til að allir leyfafulltrúar í Útlendingastofnun voru fjarverandi í dag. Við skulum sjá hvað gerist á næsta hálftíma,“ sagði Róbert Þór Guðnason, formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur við Vísi klukkan 15.30. Þá var hálftími í að vinnudegi lyki hjá Útlendingastofnun.

Erlendir leikmenn þurfa að fá dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun áður en sótt er um atvinnuleyfi hjá Vinnumálastofnun. Málið er í strandi hjá fyrrnefndu stofnunni vegna fjarvista allra þeirra starfsmanna sem geta afgreitt umsóknirnar.

„Þetta fór inn löngu fyrir jól en menn hafa verið í fríi og verið veikir,“ sagði Skarphéðinn Eiríksson, formaður körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar.

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, tók í svipaðan streng. „Við sendum okkar pappíra inn strax eftir jól en það var heldur enginn við þá,“ sagði Ingi Þór.

„Þetta var rosalega fúlt. Þetta er ekki eins og þetta á að vera. Nógu erfitt er að skipta um erlendan leikmann og svo bætist nú við að útskýra þetta fyrir leikmönnum og leikmanninum sjálfum sem er kominn til landsins og bíður þess eins að geta spilað með liðinu.“

Öll þrjú lið eiga leiki í Domino's-deild karla í kvöld. Njarðvík mætir Keflavík klukkan 19.15 en leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×