Skoðun

Að upplifa jól með hug byrjandans

Ingrid Kuhlman skrifar

Núvitund hefur verið að ryðja sér til rúms undanfarin ár og sífellt fleiri leggja áherslu á að þjálfa meðvitaða athygli og vera meira til staðar í eigin lífi. Ekki einungis stjórnendur og starfsfólk í fyrirtækjum á borð við Google, Maersk, eBay, Apple, Nike og Facebook leggja stund á núvitund heldur hafa skólar á öllum skólastigum tekið þetta upp. Nýlega var lýðheilsustefna fyrir landið allt samþykkt ásamt áætlun um aðgerðir sem eiga að stuðla að heilsueflandi samfélagi. Stefnt er að því að þjálfa 800 íslenska kennara í að kenna börnum í leik- og grunnskólum núvitund.



Opinn og forvitinn hugur

Eitt af því sem einkennir núvitund er að nálgast hlutina með hug byrjandans. Hugur byrjandans getur aðstoðað okkur við að sjá hluti í nýju ljósi frekar en að bregðast við þeim á sjálfstýringunni. Hugur byrjandans er opinn og gæddur forvitni og undrun, líkt og hjá ungu barni. Hann tekur þátt í upplifunum eins og um fyrsta skiptið sé að ræða og er laus við fyrirfram mótaðar skoðanir, væntingar, dóma og ályktanir. Hugur byrjandans er í núinu til að skanna, skoða og sjá hluti eins og þeir eru. Hann er frjáls, áhugasamur og vakandi vitund. Um leið og við ákveðum að við vitum allt og höfum upplifað allt áður, lokum við á eldmóðinn og forvitnina.



Góð leið til að þjálfa hug byrjandans er að ímynda sér að maður sé að upplifa eitthvað í fyrsta skipti. Ímyndaðu þér til dæmis að þetta séu þín fyrstu jól. Láttu koma þér á óvart. Horfðu undrandi á fegurð jólaljósanna, finndu lyktina af mandarínum, piparkökum og kanil og hlustaði á jólalögin sem óma. Taktu eftir öllu því stóra og smáa sem þú hefur tekið sem sjálfsögðum hlut.



Núvitund er einnig að veita matnum sem við borðum óskerta athygli. Virkjaðu öll skynfærin, finndu lyktina af kræsingunum, áferðina á tungunni, greindu í sundur mismunandi bragðtegundir í munninum, finndu hvert tungan fer þegar þú kyngir, o.s.frv. Vertu á staðnum, láttu koma þér á óvart og njóttu.

Gleðileg jól!




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×