Íslenski boltinn

Heimir: Hef aldrei náð að þakka Óla nægilega mikið fyrir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Guðjónsson og Ólafur Jóhannesson þjálfa á móti hvorum öðrum.
Heimir Guðjónsson og Ólafur Jóhannesson þjálfa á móti hvorum öðrum. Vísir/Andri Marinó
Heimir Guðjónsson gerði FH að Íslandsmeisturum í fimmta sinn í sumar en hann ákvað að hrista aðeins upp í hlutunum eftir tímabilið þrátt fyrir tvo Íslandsmeistaratitla í röð.

Guðlaugur Baldursson er ekki lengur aðstoðarmaður Heimis heldur fékk hann Ólaf Pál Snorrason til að taka að sér það starf. Þetta var ein af erfiðu en óumflýjanlegu ákvörðunum að mati Heimis.

„Við tókum þá ákvörðun í haust að hrista aðeins upp í hlutunum. Þótt vel hafi gengið síðustu ár þá er oft nauðsynlegt að gera breytingar. Við mátum stöðuna þannig á þessum tímapunkti að gera þyrfti breytingar bæði á leikmannahópnum og skipt var um aðstoðarþjálfara,“ segir Heimir Guðjónsson í viðtali við Kristján Jónsson í Morgunblaðinu í dag.

„Ef maður ætlar að viðhalda velgengni þá þarf maður annars slagið að hrista upp í hlutunum og taka leiðinlegar ákvarðanir. Við viljum viðhalda okkar velgengni og þetta var ein leið í því,“ sagði Heimir.

Heimir Guðjónsson segist eiga einum þjálfara Pepsi-deildarinnar í dag, Ólafi Jóhannessyni, mikið að þakka fyrir það hversu langt Heimir hefur náð sem þjálfari.

„Þegar Óli tók við þá gerði hann mig strax að fyrirliða og sagði að ég þyrfti að stjórna fyrir hann inn á vellinum. Ég kann Ólaf miklar þakkir fyrir það og hef sennilega aldrei náð að þakka honum nægilega fyrir það traust sem hann sýndi mér þá," sagði Heimi sem var fyrst fyrirliði hjá Ólafi Jóhannessyni og svo aðstoðarþjálfari hans.

„Aðstoðarþjálfarar fá stundum ekki meiri ábyrgð en að setja upp æfingarnar, stilla upp keilum og sækja boltana. Að vera aðstoðarmaður Óla var frábært að því leytinu til að ég fékk nánast að gera það sem ég vildi. Ég stjórnaði æfingunum og stjórnaði leikjum á veturna,“ sagði Heimir meðal annars í stóru viðtali við hann í Morgunblaðinu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×