Erlent

Kerry sendir Netanyahu tóninn á síðustu metrunum í valdatíð sinni

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
John Kerry er starfandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
John Kerry er starfandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Vísir/EPA
Svo virðist sem John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafi raskað rónni enn frekar á milli Ísraels og Bandaríkjanna í nýlegri gagnrýni sinni á landnemabyggðir Ísraelsmanna í Palestínu. Reuters greinir frá. 

Kerry viðraði áhyggjur sínar að áframhaldandi landnám Ísraelsmanna gæti raskað ró enn frekar í Mið-Austurlöndum. Samband landanna tveggja, Bandaríkjanna og Ísraels, hefur þó verið í stirðari kantinum í valdatíð Obama en ráðamenn samþykktu nýverið tillögu Sameinuðu þjóðanna þar sem Ísraelsmenn eru hvattir til að enda landnemabyggðir sínar. Ísraelsmenn eru ósáttir við Bandaríkjamenn og telja að þeir hafi átt hlutdeild í að leggja tillöguna fram. Kerry bendir á að það hafi hins vegar verið í höndum Egyptalands.

Kerry varði þessa ákvörðun með því að benda á að þetta væri ekki gert með það í huga að einangra Ísrael heldur að þessi framganga ísraelsmanna sé ekki boðleg og sporni gegn friði. Hann bendir á að vinaþjóðir á borð við Bandaríkin og Ísrael eigi að benda hvor annarri á ef mistök eru gerð. Það sýni virðingu.

Kerry hefur mikið lagt upp úr svokallaðri tveggjalanda lausn þar sem örugg landamæri séu sett  á milli Ísraels og Palestínu sem miðar við þær línur sem lagðar voru árið 1967 þegar vestur bakki Palestínu var enn í höndum Palestínumanna. Kerry virðist því senda Ísraelsmönnum ansi gagnrýninn tón í lok valdatíðar sinnar.

Netanyahu stórmóðgaður

Benjamin Netanyahu sakaði Kerry um að vera hlutdrægan og benti á að Ísraelsmenn þyrftu ekki að fá fyrirlestur frá erlendum aðilum um hvernig þeir hátta sínum málum. Einnig sagðist hann hlakka til að vinna með nýkjörnum forseta Bandaríkjanna Donald Trump þar sem sá hafi lagt upp með að samband Bandaríkjanna og Ísraels muni aðeins styrkjast í valdatíð sinni. 

Forseti Palestínu, Mahmoud Abbas sagði í andsvari að hann teldi þó að friður á milli Ísrael og Palestínu væri mögulegur en áréttaði að til þess þyrftu Ísraelsmenn að stöðva landnemabyggðir sínar og læra að lifa í friði með þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×