Sport

Þuríður Erla lyftingakona ársins annað árið í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þuríður Erla Helgadóttir.
Þuríður Erla Helgadóttir. Mynd/Lyftingasambands Íslands
25 ára Ármenningur og 33 ára Garðbæingur eru „Lyftingafólk ársins 2016“ en stjórn Lyftingasambands Íslands hefur valið sitt besta fólk á árinu.

Þuríður Erla Helgadóttir úr Ármanni er lyftingakona ársins 2016 og er þetta annað árið í röð sem hún hlýtur titilinn. Auk þess að standa sig frábærlega á mótum á vegum Lyftingasambands Íslands hefur hún einnig keppt í Crossfit.

Þuríður Erla varð í fjórtánda sæti í -58 kílóa flokki á Evrópumeistaramótinu í Ólympískum Lyftingum sem haldið var í Noregi.

Hún varð einnig Íslandsmeistari 2016 í -58 kílóa flokki og stigahæsti íslenski keppandinn á því móti og jafnframt stigahæst íslenskra kona allra tíma þegar hún snaraði 80 kílóum og jafnhenti 104 kílóum sem gáfu henni 260 Sinclair stig.

Andri Gunnarsson úr lyftingafélagi Garðabæjar er lyftingakarl ársins 2016. Hann varð Íslandsmeistari 2016 og stigahæsti maður mótsins þegar hann snaraði 157 kílóum í +105 kílóa flokki karla og setti nýtt íslandsmet.

Andri jafnhenti einnig 186 kílóum sem er einnig nýtt met og gáfu honum 354,6 Sinclair stig.

Lyftingasambandið veitti líka aftur verðlaun til bestu ungmenna (20 ára og yngri) í karla og kvenna flokki.

Ungmenni ársins í karlaflokki var Einar Ingi Jónsson úr Lyftingafélagi Reykjavíkur en Einar Ingi keppti á sjö mótum á árinu og setti Íslandsmet í einni eða fleiri greinum á þeim öllum í -69 kílóa flokki karla.

Ungmenni ársins í kvennaflokki var Freyja Mist Ólafsdóttir úr Lyftingafélagi Reykjavíkur en Freyja Mist setti 10 Norðurlandamet unglinga á árinu í -75 kílóa og +75 kílóa flokki kvenna 20 ára og yngri.

Andri GunnarssonMynd/Lyftingasambands Íslands



Fleiri fréttir

Sjá meira


×