Fótbolti

Tottenham lenti undir á Wembley en náði Evrópudeildarsætinu | Sjáðu mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tottenham Hotspur tryggði sér þriðja sætið í E-riðli Meistaradeildarinnar og þar með sæti í Evrópudeildinni eftir 3-1 sigur á CSKA Moskvu á Wembley í kvöld.

CSKA Moskva komst í 1-0 á 33. mínútu og þau úrslit hefðu tryggt liðinu sæti í Evrópudeildinni.

Tottenham hafði tapað tveimur fyrstu heimaleikjum sínum í Meistaradeildinni á tímabilinu en liðið spilar Evrópuleikina á Wembley en ekki White Hart Lane.

Tottenham voru ekki á því að segja skilið við Evrópu í vetur og snéru leiknum við með tveimur mörkum fyrir hálfleik.

Dele Alli jafnaði metin á 38. mínútu eftir að hafa tekið snilldarlega við fyrirgjöf Christian Eriksen. Markið átti þó ekki að standa vegna rangstöðu en Tottenham menn höfðu heppnina með sér.

Christian Eriksen átti einnig þátt í öðru markinu sem Harry Kane skoraði af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Danny Rose.

Dele Alli var síðan maðurinn á bak við þriðja markið sem kom á 77. mínútu. Markið skráist sem sjálfsmark á Igor Akinfeev, markvörð CSKA, sem sparkaði boltanum í eigið mark eftir að hafa varið áður skot frá Dele Alli.

Tottenham náði því loksins að vinna leik á Wembley og verður því í pottinum þegar dregið verður í 32 liða úrslit Evrópudeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×