Fótbolti

Hundrað prósent hjá spænsku liðunum í Evrópukeppnunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og félagar í Barcelona eru eitt af sjö spænskum liðum sem komust áfram í Evrópukeppnunum.
Lionel Messi og félagar í Barcelona eru eitt af sjö spænskum liðum sem komust áfram í Evrópukeppnunum. Vísir/Getty
Hundrað prósent árangur hjá spænsku liðunum í Evrópukeppnunum

Spænsku liðin hafa verið sigursæl í Evrópukeppnunum undanfarin tímabil og það ætlar ekki að breytast mikið í vetur ef marka má gengi liðanna til þessa.

Öll sjö liðin sem tóku þátt í Meistaradeildinni og Evrópudeildinni komust áfram í útsláttarkeppnina en dregið verið í 16 liða úrslit Meistaradeildarinnar og 32 liða úrslit Evrópudeildarinnar á mánudaginn.

Barcelona, Atlético Madrid, Real Madrid og Sevilla komust öll áfram í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar en Athletic Bilbao, Celta Vigo og Villarreal fóru öll í 32 liða úrslit Evrópudeildarinnar.

Hér fyrir neðan má sjá hvernig spænsku liðunum sjö gekk í riðlakeppni Evrópukeppnanna á þessu tímabili.

Barcelona vann C-riðil Meistaradeildarinnar en liðið fékk 15 stig af 18 mögulegum og var með markatöluna 20-4. Manchester City varð í 2. sæti.

Atlético Madrid vann D-riðil Meistaradeildarinnar en liðið fékk 15 stig af 18 mögulegum og var með markatöluna 7-2. Bayern München varð í 2. sæti.

Real Madrid varð í 2. sæti í F-riðli Meistaradeildarinnar en liðið fékk 12 stig af 18 mögulegum og var með markatöluna 16-10. Borussia Dortmund fékk tveimur stigum meira og vann riðilinn.

Sevilla varð í 2. sæti í H-riðli Meistaradeildarinnar en liðið fékk 11 stig af 18 mögulegum og var með markatöluna 7-3. Juventus fékk þremur stigum meira og vann riðilinn.

Athletic Bilbao komst áfram upp úr F-riðli Evrópudeildarinnar en liðið fékk 10 stig af 18 mögulegum og var með markatöluna 10-11. Genk komst líka áfram en á leik inni sem var flautaður af í kvöld vegna þoku.

Celta Vigo varð í 2. sæti í G-riðli Evrópudeildarinnar en liðið fékk 9 stig af 18 mögulegum og var með markatöluna 10-7. Ajax fékk fimm stigum meira og vann riðilinn.

Villarreal varð í 2. sæti í L-riðli Evrópudeildarinnar en liðið fékk 9 stig af 18 mögulegum og var með markatöluna 9-8. Osmanlıspor fékk einu stigi meira og vann riðilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×