Íslenski boltinn

Hætti vegna hjartagalla: Fótboltinn tekinn af mér á einu augnabliki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Atli í leik gegn Val í sumar.
Guðmundur Atli í leik gegn Val í sumar. vísir/eyþór
Guðmundur Atli Steinþórsson, leikmaður Breiðabliks, hefur neyðst til að leggja skóna á hilluna en það kom fram í sameiginlegri yfirlýsingu hans og Breiðabliks. Hún birtist á blikar.is.

Guðmundur Atli gekk í raðir Breiðabliks frá nágrannafélaginu HK fyrir síðasta tímabil og náði að spila í sex leikjum. Þar sem að Blikar voru að fara að spila í Evrópukeppni í sumar gengust allir leikmenn undir læknisskoðun hjá Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, þar sem hjartagallinn kom í ljós.

„Allir sem fara í Evrópukeppni fara í hjarta- og ómskoðun og þá kom þetta í ljós. Ég var strax settur í tveggja vikna pásu á meðan ég gekkst undir frekari rannsóknir,“ sagði Guðmundur Atli í samtali við Vísi í dag.

Hann segir að gallinn sé líklega ættgengur en að hann hafi aldrei kennt sér meins áður. Líklegt er að gallinn hefði ekki uppgötvast nema út af því að Guðmundur Atli gerðist leikmaður Breiðabliks sem hafði unnið sér inn þátttökurétt í Evrópukeppni.

„Auðvitað hefði maður viljað klára ferilinn fyrst en ástæðan fyrir því að UEFA er með svona strangt eftirlit er að knattspyrnumenn hafa fengið hjartaáfall inni á vellinum og dáið,“ sagði Guðmundur Atli sem kallar eftir því að meira verði gert í þessum málum fyrir íslenska knattspyrnumenn - aðra en þá sem eru bara að fara að spila í Evrópukeppni.

„Það virðist oft þurfa eitthvert svakalegt slys áður en einhver gerir eitthvað í hlutunum. Maður er ekki vitur eftir á í svona málum.“

Hann segir að þetta hafi verið áfall en að hann hafi þó vitað þetta síðan í sumar. Honum líði því vel í dag.

„Lífið heldur áfram og fótboltinn er ekki allt. En maður er vissulega leiður yfir þessu enda búinn að vera í íþróttinni síðan maður var krakki. Svo er þetta tekið af manni á einu augnabliki.“

„Ég var á leið í Evrópukeppni í fyrsta sinn á ævinni og svo gerðist þetta. Ég ætlaði ekki að trúa lækninum þegar hann sagði mér þetta fyrst. En þetta hefur engin áhrif á daglegt líf hjá mér, sem betur fer.“

„Kannski að ég leyfi mér að vera með í bumbubolta með félögunum. Ég passa mig bara á því að hanga bara frammi,“ sagði hann í léttum dúr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×