Fótbolti

Akinfeev fékk á sig mark í 42. Meistaradeildarleiknum í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Akinfeev virðist ekki geta haldið hreinu í Meistaradeildinni.
Akinfeev virðist ekki geta haldið hreinu í Meistaradeildinni. vísir/getty
Ófarir rússneska markvarðarins Igors Akinfeev í Meistaradeild Evrópu halda áfram.

Akinfeev var á sínum stað í marki CSKA Moskvu þegar liðið fékk Bayer Leverkusen í heimsókn í E-riðli Meistaradeildarinnar í kvöld.

Kevin Volland kom Þjóðverjunum yfir á 16. mínútu. Akinfeev hefur nú fengið á sig mark í 42 Meistaradeildarleikjum í röð en hann hélt síðast hreinu í Meistaradeildinni árið 2006.

Sigur hefði komið Leverkusen í góða stöðu í riðlinum en Ísraelsmaðurinn Bibras Natcho spillti gleði þýska liðsins þegar hann jafnaði metin úr vítaspyrnu 14 mínútum fyrir leikslok. Lokatölur 1-1.

Leverkusen er áfram í 2. sæti riðilsins, nú með sjö stig. CSKA Moskva er hins vegar í fjórða og neðsta sætinu og á ekki lengur möguleika á að komast áfram í 16-liða úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×